

Tónlistarmaðurinn ástsæli Helgi Pétursson, gjarnan kenndur við Ríó Tríó, er látinn 76 ára að aldri. Hann lést aðfararnótt fimmtudagsins 13. nóvember.
Helgi fæddist í Reykjavík þann 28. maí 1949 en foreldrar hans voru Kristín Ísleifsdóttir, húsmóðir og Pétur Kristjónsson bílstjóri.
Helgi ólst upp í Kópavogi en og fékk snemma áhuga á tónlist. Sextán ára gamall stofnaði hann svo hljómsveitina Ríó Tríó ásamt æskuvini sínum Ólafi Þórðarsyni og Halldóri Fannari en síðar gekk Ágúst Atlason til liðs við þremenningana.
Helgi spilaði á kontrabassa í sveitinni sem sló í gegn og vann sér sess í hjörtum allra Íslendinga.
Helgi menntaði sig sem kennari og starfaði við fagið um tíma en færði sig svo yfir í fjölmiðlageirann þar sem hann starfaði um áratugaskeið, meðal annars hjá Dagblaðinu, RÚV og Stöð 2. Síðar starfaði Helgi að markaðs- og upplýsingamálum fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir, til að mynda Orkuveitu Reykjavíkur.
Helgi lét sig samfélagið varða alla tíð og átti sæti í borgarstjórn Reykjavíkur á árunum 1994-2002 fyrir Reykjavíkurlistann, fyrst sem varaborgarfulltrúi. Hin síðari ár starfaði hann um skeið sem formaður Félags eldri borgara og vakti athygli fyrir baráttu sína fyrir bættum kjörum aldraðra.
Eftirlifandi eiginkona Helga er Birna Pálsdóttir, fædd 1953. Þau eignuðust fjögur börn, Bryndísi, fædd 1977, Pétur, fæddur 1978, Heiða Kristín, fædd 1983, og Snorra, fæddur 1984. Barnabörnin þeirra eru alls 12 talsins.