Margir Íslendingar furða sig á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem maður á þrítugsaldri fékk skilorðsbundinn dóm fyrir höfuðhögg sem leiddi til dauða annars manns. Er því velt upp hvort þjóðernið hafi skipt máli, en hinn látni var frá Litháen.
„Hvernig er hægt að drepa mann og ekki þurfa að sitja inni? Er ég að missa af einhverju varðandi þetta mál?“ segir einn netverji á samfélagsmiðlinum Reddit. En þar hafa skapast miklar umræður um málið og eru flestir hneykslaðir á hinum væga dómi.
Í gær var greint frá því í fjölmiðlum að Íslendingur á þrítugsaldri, Irving Alexander Guridy Peralta, hefði verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir líkamsárás sem leiddi til dauða litháísks manns, Karolis Zelenkauskas. Dómurinn var hins vegar skilorðsbundinn til þriggja ára. Sem sagt hinn dæmdi þarf ekki að sitja einn dag inni. Fram kemur að Irving hafi játað brot sitt.
Dómurinn hefur ekki verið birtur. Samkvæmt fréttum átti árásin sér stað á skemmtistaðnum Lúx í júní árið 2023. Var Íslendingnum gefið að sök að hafa slegið Litháann fyrirvaralaust eitt högg á vinstri hluta hálsins, aftan við eyrað þannig að hann fékk slink á höfuðið. Lést hann af völdum altæks heiladreps vegna innanskúmsblæðingar vegna rofs á vinstri aftari neðri hnykilslagæð.
Irving var farinn af vettvangi þegar lögregla mætti á staðinn en var handtekinn í nágrenni vð Lúx. Karolis var meðvitundarlaus á gólfi skemmtistaðarins.
Auk hins skilorðsbundna dóms, sem var kveðinn upp 30. desember, þarf hinn dæmdi að greiða móður hins látna 2,9 milljónir króna í bætur.
„Alltof stuttur dómur og fáránlegt að þurfa ekki að sitja hann af sér,“ segir einn netverji í athugasemdum. Er hann augljóslega hneykslaður á dóminum, eins og margir fleiri. „Bæturnar eru líka sorglega lágar. Svona dómar sína bara hvað mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu.“
„Erfitt að taka skýra afstöðu áður þegar dómurinn hefur ekki verið birtur, en miðað við lýsinguna í fréttinni finnst mér þetta vera ótrúlega vægur dómur. Vonandi verður honum áfrýjað,“ segir annar.
„Þegar verið er að dæma í svona málum (og öllum málum ef út í það er farið) þá er alltaf horft til ásetnings þess sem framdi brotið. Það er mjög ólíklegt að maður sem lemur annan mann einu sinni í haus/háls ætli sér að drepa viðkomandi,“ segir einn sem reynir að lesa í útkomuna. „Mér finnst líklegt að það sé að leiða til refsilækkunar hér.“
Einn nefnir að það sé viðvarandi ofbeldismenning hér á landi. Réttarkerfið geri ekkert til þess að draga úr því. „Það er ekkert eðlilegt né í lagi við það að fólk sé að kýla annað fólk, höggin eru lífshættuleg ein og sér og fallið afturábak á guð veit hvað einnig lífshættulegt eitt og sér,“ segir hann. „Það væri löngu, löngu búið að snarminnka ofbeldið á þessu landi ef það væri einhver vilji til staðar hjá réttarkerfinu til að senda skilaboð til þeirra sem vita að það eru engar afleiðingar.“
Þá er málið borið saman við manndrápsmálið fyrir utan Fjarðakaup í Hafnarfirði í apríl 2023. Þar var pólskur maður drepinn í átökum við nokkur íslensk ungmenni. Sá sem hlaut þyngsta dóminn, fékk tólf ára fangelsisdóm. Hann var hins vegar laus úr fangelsi aðeins einu og hálfu ári seinna við mikla hneykslun pólska samfélagsins á Íslandi.
„Enginn rasismi á Íslandi í dag, að stinga erlendan mann í köldu blóði út af dóp skuld er bara eitt og hálft ár sem þýðir bara eitt að íslenski dómstóllinn er mjög kært um fólk frá utan vegna þeirra ástæðu sem er erfitt að lýsa en ávallt stenst skoðun,“ segir einn netverji.