Foreldrahópur leikskólabarna hefur stefnt Kennarasambandi Íslands (KÍ) út af meintu ólögmæti verkfallsaðgerða í leikskólum. Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segir kæruna foreldrunum til skammar og sagðist ekki vitað hvernig þessir foreldrar gætu horft í augu kennara barna sinna eftir þetta. Haraldur tjáði sig um málið í svörum til Vísis í gær.
Kristófer Már Maronsson er þriggja barna faðir og segist vel geta horft í augun á kennurum því hann telur kæruna vera réttmæta til að verja hagsmuni barna sinna. Þetta snúist ekki um að ná höggi á kjarabaráttu kennara eða svipta þá verkfallsrétti heldur snúist þetta um börnin. Þetta kemur fram í svargrein Kristófers til Haralds.
Segist Kristófer til þessa hafa reynt að hafa sig hægan í umræðunni um verkfallsaðgerðir KÍ enda málið viðkvæmt. Nú geti hann þó ekki lengur orða bundist.
„Nú get ég ekki lengur orða bundist.
Formaður félags leikskólakennara telur hóp foreldra verða sér til skammar og minnkunnar með stefnu sem hann segir aðför að kennurum og tilraun til þess að svipta kennurum þeim lagalega neyðarrétti að geta barist fyrir bættum kjörum. Lengra frá sannleikanum gætu staðreyndir málsins ekki verið og ég vona að það sé ekki einbeittur brotavilji formannsins að reyna að etja saman kennurum og foreldrum. Kennarar og foreldrar eru saman í liði, en þó geta liðsmenn deilt.“
Sem betur fer er Ísland réttarríki þar sem hægt er að leita til dómstóla þegar grunur vaknar um að lög landsins hafi verið brotin. Kristófer rekur að í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna er tekið fram að verkfall nái til allra starfsmanna stéttarfélags sem starfa hjá þeim vinnuveitanda sem verkfallið beinist að. Leikskólakennarar vinna hjá sveitarfélögunum og furðar Kristófer sig á því að hægt sé að velja einstaka leikskóla úr tilteknum sveitarfélögum fyrir verkfallsaðgerðir. Lögin gefi til kynna að heldur ættu verkföll að ná til valinna sveitarfélaga í heild sinni. Ekki nema KÍ sé að líta á einstaka starfsstöðvar sem vinnuveitanda frekar en sveitarfélögin sjálf. Réttast væri að Samband íslenskra sveitarfélaga hefði kannað þetta fyrir dómstólum en þar sem sambandið gerði það ekki þá lendir það á foreldrum.
„Það er öflugur hópur fólks sem lagði mikinn tíma og undirbúningsvinnu í þetta mál og þau eiga heiður skilið fyrir að taka af skarið fyrir nokkrum mánuðum.“
Foreldrar hafi engan áhuga á að standa fyrir aðför að réttindum kennara og þessari kæru fylgi engin heift. Hér sé um vafamál að ræða sem þurfi að fá svör við. Málið muni svo klárlega hafa fordæmisgildi til framtíðar.
„Okkur foreldrum ber frumskylda að hugsa um börnin okkar. Það er ekki réttlætanlegt að börn í 4 leikskólum af 270, og nú bráðlega í 14 af 270, þurfi að bera skaðann af kjaradeilu sem þau hafa enga aðkomu að. Reynt er á hvort það sé andstætt lögum.“
Það sé sjálfsagt að foreldrar fái úr því skorið hvort brotið sé á réttindum barna þeirra og gagnrýnir Kristófer að Haraldur leyfi sér að tala niður til þessa hóps fyrir að nýta sér þennan grundvallarrétt.
„Það að tala niður til fólks sem nýtir sér þann rétt er grafalvarlegt og grefur undan réttarríkinu og lýðræðinu ef það fær að viðgangast óátalið.“
Verkfallsrétturinn sé sömuleiðis skýr og sjálfsagður en það þurfi að beita honum rétt, í samræmi við lög. Stundum gerist það að fólk brýtur lög í góðri trú enda enginn fullkominn.
„Ég tel ekki að KÍ hafi ætlað sér að brjóta lög, verði það niðurstaðan. Það er margoft sem venjulegt fólk brýtur lög án ásetnings, í góðri trú. Gleymum því ekki að enginn er fullkominn – ekki einu sinni verkalýðsleiðtogar.“
Kristófer tekur fram að hann er þakklátur þeim leikskólakennurum sem hafa tekið börnum hans opnum örmum í gegnum árin. Þetta sé stórkostlegt fólk sem gefa börnunum mikið, en Kristófer veigrar sér ekki við því að horfa í augu þeirra og greina þeim frá því að hann sé að gæta hagsmuna barna sinna þó svo hann voni að kjaradeilan fái farsæla og ósættanleg málalok.
„Ég get horft í augun á ykkur og sagt: Ég er að gera það sem ég tel réttast til að verja hagsmuni barnanna minna, en á sama tíma þá vona ég að þið fáið niðurstöðu í ykkar kjaradeilu sem þið eruð sátt við – það eru sömuleiðis hagsmunir barnanna minna. Frá mínum bæjardyrum séð er undirliggjandi krafa kennara þjóðarsátt um kaupmáttaraukningu umfram aðra samfélagshópa og ég tel tímabært að forsvarsmenn kennara viðurkenni það. Ég tel slíka kröfu ekki innistæðulausa, en það eru mörg horn sem þarf að líta í samhliða. Um þjóðarsátt verður þó ekki samið milli KÍ og SÍS. Ótímabundin verkföll í nokkrum leikskólum breyta engu þar um. Stjórnvöld, stéttarfélög og atvinnulíf þurfa að eiga það samtal, helst í gær. “