Úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur staðfest synjun Skattsins á beiðni ónefnds manns um upplýsingar. Óskaði maðurinn eftir upplýsingum um greiðslur mótshaldara Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum 2024 á opinberum gjöldum. Var beiðninni synjað einkum á þeim grundvelli að það kostaði of mikla vinnu fyrir starfsmenn Skattsins að taka svarið saman.
Maðurinn kærði synjun Skattsins til nefndarinnar í nóvember síðastliðnum. Hafði hann óskað eftir upplýsingum um hverju mótshaldarar Þjóðhátíðarinnar í Vestmannaeyjum 2024 hefðu skilað í opinber gjöld. Þá óskaði hann einnig upplýsinga um hvað þau gjöld hétu sem innheimt væru og hvernig þau sköruðust.
Í svari Skattsins til mannsins kom fram að upplýsingar um hverju mótshaldarar Þjóðhátíðarinnar í Vestmannaeyjum 2024 hefðu skilað í opinberum gjöldum væru ekki fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga. Þá taldi Skatturinn að stofnuninni væri hvorki rétt né skylt að ráðast í samantekt á þessum umbeðnum upplýsingum.
Í kæru mannsins til nefndarinnar kom fram það álit hans að það væri ekki trúverðugt að þriggja mánaða upplýsingar þyrfti að taka saman sérstaklega. Til vara krafðist hann þess að honum yrði gert kleift að taka upplýsingarnar sjálfur saman.
Í umsögn Skattsins til nefndarinnar sem barst í desember síðastliðnum voru ítrekaðar þær forsendur sem fram komu í hinni kærðu ákvörðun, að þau gögn sem kæran lyti að væru ekki fyrirliggjandi.
Í janúar síðastliðnum óskaði nefndin eftir upplýsingum frá Skattinum um hvort þær upplýsingar sem maðurinn óskaði eftir væru vistaðar hjá stofnuninni og ef svo væri hversu mikla vinnu þyrfti að leggja í að taka þær saman.
Svar Skattsins var meðal annars það að sérgreindar upplýsingar hafi ekki verið vistaðar í gagnagrunnum stofnunarinnar tengdar einstökum viðburðum, þar sem gögn séu almennt vistuð á einstaka skattaðila. Afmarkaðar upplýsingar yrðu þannig ekki kallaðar fram undirbúningslaust með einföldum skipunum um einstaka viðburði og ótilgreindan hóp skattaðila í því sambandi eða mögulegar skattgreiðslur miðað við hagnað einhvers á ákveðnu tímabili innan ársins.
Því hafi ekki verið hægt að afla þeirra upplýsinga sem maðurinn fór fram á um skattgreiðslur mótshaldara Þjóðhátíðar 2024 án verulegrar fyrirhafnar. Eftirlit af hálfu stofnunarinnar beindist almennt ekki að einstökum viðburðum.
Í niðurstöðu Úrskurðarnefndar um upplýsingamál segir að hún hafi engar forsendur til að draga í efa þá fullyrðingu Skattsins að gögn með umbeðnum upplýsingum sé ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni. Þá sé ljóst að ekki væri unnt að kalla fram gögn með þeim upplýsingum sem óskað var eftir með tiltölulega einföldum hætti, heldur þyrfti að ráðast í vinnu sem væri nokkuð mikil að umfangi. Með vísan til þess og upplýsingalaga yrði því lagt til grundvallar að gögn með umbeðnum upplýsingum væru ekki til staðar hjá Skattinum.
Því var synjun Skattsins á upplýsingabeiðni mannsins staðfest og er það niðurstaða nefndarinnar að Skatturinn hafi ekki verið að synja manninum um aðgang að upplýsingum þar sem þær upplýsingar sem hann vildi fá aðgang að væru ekki til hjá stofnuninni.