Gul viðvörun tók gildi á Norðurlandi eystra á miðnætti og tekur appelsínugul viðvörun við klukkan 18 í kvöld. „Norðvestanátt með talsverðri snjókomu,“ segir á vef Veðurstofunnar en gert er ráð fyrir norðvestan 10 til 15 metrum á sekúndu og talsverðri snjókomu á fjallvegum, einkum á Tröllaskaga. Samgöngutruflanir eru líklegar og ekki mælt með ferðalögum. Appelsínugul viðvörun er í gildi til klukkan 18 á morgun.
Svipað er uppi á teningnum á Ströndum og Norðurlandi vestra. Gul viðvörun er þar í gildi og tekur sú appelsínugula við klukkan 18. „Norðanátt með talsverðri snjókomu,“ segir á vef Veðurstofunnar og eru ferðamenn hvattir til að vera ekki á ferðinni.
Á Austurlandi tekur gul viðvörun gildi með morgninum og appelsínugul viðvörun tekur við um miðjan dag á morgun. Gert er ráð fyrir éljagangi fyrir austan, einkum á fjallvegum og gæti færð spillst. Á morgun má aftur á móti gera ráð fyrir talsverðri snjókomu á fjallvegum á þessum slóðum og eru samgöngutruflanir sagðar líklegar.
Á þriðjudag:
Norðan og norðvestan 10-18 m/s, en snarpir vindstrengir við fjöll sunnantil. Talsverð rigning eða slydda norðan- og austanlands, en annars skýjað með köflum. Dregur úr vindi vestanlands og úrkomu á Norðvesturlandi um kvöldið. Hiti 4 til 11 stig, hlýjast sunnanlands.
Á miðvikudag:
Norðan 8-18 m/s, hvassast austast, en hægari norðvestanlands. Skúrir eða él norðaustantil, en annars víða léttskýjað. Hiti 4 til 11 stig, svalast norðaustantil. Víða næturfrost inn til landsins.
Á fimmtudag:
Norðvestan 13-20 m/s og skúrir eða él norðaustantil og hvassast á annesjum þar, en annars mun hægari og víða bjart veður. Hiti 3 til 11 stig að deginum, hlýjast syðst.
Á föstudag:
Vaxandi austanátt, bjart framan af en þykknar smám saman upp. Minnkandi norðvestanátt norðaustantil og stöku él eða skúrir. Hiti breytist lítið.
Á laugardag:
Norðaustlæg átt, dálítil rigning sunnan- og austanlands, en annars þurrt. Áfram kalt í veðri, einkum fyrir norðan.
Á sunnudag:
Lægir og léttir víða til.