Tveggja ára tvíburastúlkur fundust látnar í bíl í Oklahoma í síðust viku. Lögreglan rannsakar andlát stúlknanna sem gleymdust í sjóðheitum bílnum í marga klukkutíma.
Greint er frá þessu í tímaritinu People og fleiri miðlum.
Tvíburastúlkurnar hétu Ariel og Avery Suter og fundust þær látnar um klukkan 15:00 á fimmtudag í síðustu viku í borginni Norman. Nákominn ættingi, sem ekki hefur verið greint er hver er, fann þær í bílnum sínum eftir að hann hafði gleymt að fara með þær í daggæslu um morguninn.
Höfðu stúlkurnar verið í bílnum í marga klukkutíma í meira en 30 stiga hita. Þegar sjúkrabíll kom voru þær úrskurðaðar látnar á staðnum.
„Þær voru bestu stúlkur sem þessi heimur hefur séð,“ sagði faðir þeirra Marshall Suter. „Þetta er svo sárt af því að stúlkurnar voru svo innilega elskaðar og vel sinnt.“ Vildi hann slá á ljóta orðróma sem farið höfðu af stað.
Lögreglan í Norman hefur nú hafið rannsókn á málinu. „Frumrannsókn bendir til þess að börnin tvö hafi verið skilin eftir í bílnum fyrir slysni í langan tíma og hafi fundist seinna af fjölskyldumeðlim,“ segir í yfirlýsingu lögreglunnar.
Ekki hefur verið gefið upp hvort að neinn sé eða verði ákærður vegna málsins. Þó allt bendi til að stúlkurnar hafi dáið úr hita í bílnum þá eigi réttarmeinafræðingur eftir að kryfja líkin og staðfesta það.
Ættingi Suter fjölskyldunnar, Kourtney Usey, hefur komið af stað söfnun fyrir fjölskylduna á hópfjármögnunarsíðunni Gofundme. Það er til að aðstoða foreldrana með útfararkostnað og annan kostnað sem til fellur vegna andlátanna.
„Enginn veit hvernig það er að missa barn fyrr en hann lendir í því sjálfur,“ segir Usey á síðunni. „Ég veit að þessi mamma og pabbi eru að ganga í gegnum það núna. Við værum svo þakklát fyrir alla aðstoð og megi guð blessa þig fyrir hugulsemina.“
Í samtali við útvarpsstöðina KFOR segir annar fjölskyldumeðlimur að um sé að ræða hræðilegt slys sem hafi reynt gríðarlega á fjölskylduna. „Ég vona að það sjáist að þetta var ekki ætlunin og þetta var svo sannarlega slys. Fjölskyldan þarf á friði að halda á þessum erfiðu tímum,“ sagði fjölskyldumeðlimurinn.