Ríkisendurskoðun kynnti skýrslu sína, Fjársýslu ríkisins- starfshættir, skipulag og árangur, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag. Þar eru settar fram 20 ábendingar. Eitt af brýnustu úrbótaverkefnum að mati Ríkisendurskoðunar er bætt framkvæmd við reikningsskil ríkisaðila og gerð ríkisreikning. Eins er talið að eyða þurfi væntingabili milli ríkisaðila og Fjársýslunnar varðandi framkvæmd reikningsskila og stemma stigu við sinnuleysi stofnana gagnvart tímanlegum skilum gagna og ársreikninga. Þá þurfi að ljúka innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila og tryggja bætta fylgni við ákvæði staðlanna.
Sjö ábendingum er beint til fjármála- og efnahagsráðuneytis. Fjórar þeirra varða endurskoðun á lagaramma Fjársýslu ríkisins, setningu reglugerða sem enn vantar varðandi framkvæmd laga um opinber fjármál, aukna festu í stefnumótun og bætt árangursmat við innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila. Í þremur ábendingum er hvatt til samvinnu við Fjársýsluna með gerð þjónustusamninga, fjármögnun starfsemi Fjársýslunnar, könnun á fækkun fjárlagaliða og endurskoðun verklags við gerð mánaðar- og ársfjórðungsskýrslna.
Þrettán ábendingum er beint til Fjársýslunnar þar sem finna má tillögur til úrbóta og eflingar á mikilvægu starfi stofnunarinnar. Meðal annars snúa ábendingar að gerð þjónustustefnu og þjónustusamninga, gerð og miðlun leiðbeininga, fræðslustefnu og námskeið, auk ábendinga sem varða rekstur upplýsingakerfa.
Ríkisendurskoðun rekur eins það sem er jákvætt við starfsemina, svo sem að Fjársýslan hafi tekið forystu við innleiðingu sjálfvirknivæðingar verkferla sem leitt hafa til aukinnar hagkvæmni og skilvirkni í rekstri og framkvæmd margra lykilverkefna.
Um er að ræða fyrstu heildstæðu úttekt Ríkisendurskoðunar á Fjársýslunni eftir að lög um opinber fjármál tóku gildi.
Í skýrslunni má finna viðbrögð Fjársýslunnar og ráðuneytis við ábendingum og má segja að viðbrögðin séu jákvæð þar sem þakkað er fyrir góðar ábendingar og eins er Ríkisendurskoðun hrósað fyrir að taka jákvæða og uppbyggilega nálgun á úttektinni þar sem ekki eru bara gerðar athugasemdir við það sem betur megi fara heldur athygli sömuleiðis vakin á því sem jákvætt.
„Ráðuneytið kann Ríkisendurskoðun þakkir fyrir framangreindar ábendingar. Jafnframt er það eftirtektarvert að í úttektinni er ekki eingöngu horft til þess sem betur mætti fara heldur einnig bent á atriði í starfsemi Fjársýslunnar sem þykja vel heppnum og eftirtektarverð.“
Í svörum Fjársýslunnar segir:
„Það er sérstaklega ánægjulegt að Ríkisendurskoðun sér ástæðu til að hrósa vegferð stofnunarinnar í innleiðingu gagnavöruhúsa og sjálfvirknivæðingu ferla sem Fjársýslan hefur lagt sérstaka áherslu á og verið í leiðandi hlutverki.“
Segir í niðurstöðu skýrslunnar að starfshættir Fjársýslunnar hafi liðið fyrir að mikilvægar umbætur hafi ekki notið forgangs og tækifæri til úrbóta séu mörg. Mikilvægt sé að Fjársýslan beiti sér fyrir auknum aga og samræmi meðal ríkisaðila þegar kemur að færslu bókhalds og reikningsskilum. Nú þegar verkefnum stofnunarinnar hefur fjölgað sé nauðsynlegt að lagarammi sé sem skýrastur hvað varðar hlutverk, ábyrgð og heimildir stofnunarinnar gagnvart öðrum ríkisaðilum. Eins þurfi ráðuneytið að auka festu við skilgreiningu árangursmælikvarða fyrir starfsemina og leggja áherslu á skjalfest árangursmat.
Tekið er fram að veruleg frávik hafi verið á því að ríkisaðilar skili ársreikningum í samræmi við lagaskyldu. Ríkisaðilar séu upp til hópa að skila illa og seint sem sníðir Ríkisendurskoðun þröngan stakk í endurskoðun reikningsskilanna.