fbpx
Sunnudagur 10.nóvember 2024
Fréttir

Þetta eru loftsteinarnir sem vísindamenn hafa mestar áhyggjur af

Pressan
Sunnudaginn 8. september 2024 21:30

Mynd úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vísindamenn um allan heim voru gripnir í bólinu síðastliðinn miðvikudag þegar brot úr loftsteini náði til jarðar á Filippseyjum. Stærstur hluti hans brann upp í lofthjúpnum og var sjónarspilið stórkostlegt þegar hann lýsti upp næturhimininn á miðvikudag.

Vísindamenn sáu fyrst í hvað stefndi átta klukkustundum áður en loftsteinninn, sem fékk nafnið 2024 RW1, kom inn í lofthjúpinn. Þar sem ekki var um ýkja stóran stein að ræða var engin hætta á ferðum, en staðreyndin er samt sem áður sú að þarna úti eru loftsteinar sem hætta gæti stafað af.

Myndband af 2024 RW1:

Fyrir 66 milljónum ára rakst loftsteinn á jörðina á Yucatán-skaga þar sem nú er Mexíkó og skildi eftir sig slóð eyðileggingar. Talið er að þessi loftsteinn, eða halastjarna (smástirni) sem var 9,65 kílómetrar í þvermál, sé meginástæða þess að risaeðlurnar dóu út. Minni loftsteinar hafa einnig valdið óskunda, til dæmis árið 2013 þegar einn slíkur komst til jarðar í Rússlandi. Höggbylgjan olli skemmdum á 7.300 húsum og tæplega 1.500 manns þurftu að leita sér aðhlynningar á sjúkrahúsi.

Geimferðarstofnanir eins og NASA og ESA fylgjast vel með því sem er að gerast fyrir ofan okkur og telja sig hafa ágæta mynd af loftsteinum sem geta ógnað okkur.

Þannig er til sérstakur skali, sem kallast Tórínó-skalinn, sem flokkar loftsteina í einskonar áhættuhópa. Ef loftsteinn fær einkunnina 0 er engin hætta á að hann lendi í árekstri við jörðina en ef hann fær 10 er öruggt að hann lendi í árekstri með skelfilegum afleiðingum. Ef einhver er farinn að ókyrrast skal tekið fram að enginn loftsteinn er með hærri einkunn en 1 á skalanum.

Mail Online hefur tekið saman sex loftsteina eða smástirni sem gætu lent í árekstri við jörðina þó líkurnar séu ef til vill hverfandi.

1. Bennu

Þvermál: 479 metrar

Líkur á árekstri: 1/2.700 þann 24. september 2182

Vísindamenn uppgötvuðu þennan loftstein árið 1999 en hann er engin smásmíði, eða 67 milljón tonn og 200 sinnum þyngri en Empire State-byggingin. Það eru sem betur fer ekki mjög miklar líkur á árekstri og ef það gerist verður það ekki í okkar líftíma. Áreksturinn yrði samt harður og myndi krafturinn jafngilda því ef sprengd yrðu 1,4 milljarðar tonna af sprengiefninu TNT.

2. 1950 DA

Þvermál: 1.999 metrar

Líkur á árekstri: 1/34.500 þann 16. mars 2880

Þetta er stærsti loftsteinninn á listanum og hann vegur hvorki meira né minna en 71 milljón tonn. Eins og sést hér að ofan eru líkur á árekstri sem betur fer litlar en ef svo ólíklega vill til að hann lendi á jörðinni yrðu afleiðingarnar skelfilegar, sennilega svipaðar og þegar risaeðlurnar dóu út. Árekstur myndi leysa úr læðingi orku sem jafngildir 75 milljörðum tonna af TNT.

3. 2023 TL4

Þvermál: 330 metrar

Líkur á árekstri: 1/181.000 þann 10. október 2119

Annar loftsteinn sem gæti haft skelfilegar afleiðingar, en hann vegur 43 milljónir tonna. Til að setja það í samhengi jafngildir það 4.500 Eiffel-turnum og myndi krafturinn jafngilda 150 Tsar-kjarnorkusprengjum sem Sovétmenn þróuðu fyrir margt löngu. Tsar-sprengjan, stundum kölluð Keisarasprengjan, er stærsta sprengja sem hefur verið sprengd.

4. 2007 FT3

Þvermál: 659 metrar

Líkur á árekstri: 1/11,5 milljónir þann 5. október 2024

Þetta er sá loftsteinn sem er skemmst frá okkur í tíma, ef svo má segja. Stærðfræðilega gæti hann lent í árekstri við jörðina eftir tæpan mánuð en líkurnar eru litlar sem engar. Og þó. Líkurnar á að vinna fyrsta vinning í Euro Jackpot eru 1 á móti 139 milljónum en það er fullt af fólki sem kaupir sér miða í hverri viku. Árið 2030 eru aftur líkur á árestri en þá eru þær um 1/10.000.000.

5. 2023 DW

Þvermál: 50 metrar

Líkur á árekstri: 1/1.584 þann 14. febrúar 2046

Valentínusarloftsteinninn er hann kallaður og hann gæti sett áform elskenda í uppnám árið 2046 ef illa fer. Líkurnar á árekstri eru óþægilega miklar miðað við það sem gengur og gerist en sem betur fer er loftsteinninn ekki mjög stór. Telja vísindamenn að afleiðingarnar hugsanlegs áreksturs yrðu svipaðar og í Chelyabinsk árið 2013 – að því gefnu að hann lendi á tiltölulega heppilegum stað.

6. 1979 XB

Þvermál: 659 metrar

Líkur á árekstri: 1/1,8 milljónum þann 14. desember 2113

Hér er á ferðinni býsna stór loftsteinn sem gæti auðveldlega lagt heila stórborg í rúst. Hann er talinn vega 49 milljón tonn en eins og nafnið gefur til kynna var hann fyrst uppgötvaður árið 1979. Ekki löngu eftir að hann var uppgötvaður misstu vísindamenn sjónar á honum og vita þeir í raun ekki mikið um stefnu hans. Útreikningar um hugsanlegan árekstur eru því byggðir á gömlum gögnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan mátti áframsenda áverkamyndir af Guðnýju – „Þarna var enn og aftur brotið á mér“

Lögreglan mátti áframsenda áverkamyndir af Guðnýju – „Þarna var enn og aftur brotið á mér“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ákærur gefnar út vegna samsæris íranskra stjórnvalda um að myrða Trump

Ákærur gefnar út vegna samsæris íranskra stjórnvalda um að myrða Trump
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðlaugur Níelsson er látinn

Guðlaugur Níelsson er látinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nöturleg sjón mætti Einari í matvöruverslun: „Þetta var Íslendingur, allslaus, niðurbrotinn“

Nöturleg sjón mætti Einari í matvöruverslun: „Þetta var Íslendingur, allslaus, niðurbrotinn“