Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur í allmörg ár haldið sína útgáfu af þýsku bjórhátíðinni Októberfest og er stórt partýtjald á grasflötinni fyrir framan aðalbyggingu háskólans orðinn fastur liður í byrjun september ár hvert.
Hátíðin er vinsæl en ekki eru allir hrifnir af henni. Þeir Aðalsteinn Gunnarsson og Björn Sævar Einarsson, formaður og framkvæmdastjóri Bindindissamtakann IOGT á Íslandi, hafa birt opið bréf til Stúdentaráðs, rektors, Háskólaráðs og háskólaráðherra, á Vísir.is:
„Nú um þessar mundir eins og undanfarin haust boðar Stúdentaráð Háskóla Íslands til Októberfest – bjór-fylleríshátíðar innfluttrar frá Suður-Þýskalandi. Fylleríið er haldið á lóð Háskóla Íslands, skóla allra landsmanna, þá væntanlega með leyfi rektors og Háskólaráðs. Drykkjuhátíðin er þó ekki haldin í október eins og búast má við samkvæmt nafninu heldur nú snemma í september í lok nýnemaviku. Væntanlega til auka líkurnar á að þeir nemendur sem eru veikir fyrir víni falli sem fyrst úr skóla. Svona eins konar númerus clausus? Það má færa rök fyrir því að það sé brot á jafnrétti að Háskóli Íslands skuli svona gróflega vinna að því að fella ákveðinn hóp fólks,“ segir þeir Aðalsteinn og Björn í grein sinni.
Benda þeir á að með þessari móttökuaðferð fyrir nýnema sé horft fram hjá þeim stóra hópi háskólanema sem drekka ekki áfengi. Þeir segja:
„En þessi hópur er hvattur til að hefja drykkju þegar Stúdentaráð stendur svona með áfengisiðnaðinum og heldur Októberfest með þeim óbeinu skilaboðum að þú sért ekki alvöru-háskólastúdent nema þú neytir fíkniefna og helst mikið af þeim.“
Þeir félagar segja að með hátíðinni vinni Stúdentaráð og Háskóli Íslands freklega gegn stúdentum sem eru bindindis menn. Þeir segja einnig að við kynningu á hátíðinni brjóti Stúdentaráð gegn banni á áfengisauglýsingum:
„Áfengisauglýsingar eru bannaðar á Íslandi. Stúdentaráð auglýsir samt grimmt og brýtur þannig lög, t.d. á Facebook síðu sinni, fyllrerísveisluna sína og auglýsir sérstök magnafsláttar-bjórkort til að hvetja til sem mestrar drykkju. Boðið er upp á bjór í lítrakönnum – en áfengismagn í einum lítra af 5-6 % bjór er álíka og 5 til 6 skot af vodka. Þetta er það sem á ensku er kallað binge drinking, þýtt á íslensku sem lotudrykkja en er á kjarnyrtri íslensku fyllerí. Átti ekki innleiðing bjórsins að draga úr fylleríi? Októberfest er fyllerí.“
Þeir félagar benda í grein sinni á víðtækan skaða af áfengisneyslu, t.d. aukna tíðni krabbameins og umferðarslysa. Þeir spyrja hvað Stúdentaráð og Háskóli Íslands vilji gera til að stuðla að því að Ísland nái heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030 og hvað þessir aðilar vilji gera til að vinna gegn þeim samfélagslega skaða sem áfengisdrykkja valdi.
Þeir krefja þessa aðila svara en greinina má lesa hér.