Í nýjasta tölublaði Heimildarinnar í dag fjallar Helgi Seljan um málið og vísar meðal annars í rannsóknargögn lögreglu og skýrslur þeirra sem komu að málinu. Í umfjölluninni kemur fram að samkvæmt skýrslu tveggja matsmanna, rúmum mánuði áður en slysið varð, hafi komið fram að ekki hafi svarað kostnaði að bjarga húsinu.
„Þetta er bara stórkostlegt gáleysi af fólkinu sem stýrir verkinu,“ er haft eftir samstarfsmanni Lúðvíks í vitnaskýrslu hjá lögreglu. Umrætt verk, að fylla í sprunguop við húsið, var unnið fyrir Náttúruhamfaratryggingar Íslands sem útvistaði því til verkfræðistofunnar Eflu.
Í umfjöllun Heimildarinnar er vísað í orð samstarfsmanns Lúðvíks í framburði hans hjá lögreglu að ekki hafi verið talað um öryggislínur og ekki hefði verið talið nauðsynlegt að nota áfastar jarðvegsþjöppur „sem hefði náttúrlega allan daginn átt að vera … ekki til neitt verklag um þetta hjá
neinum,“ lýsti samstarfsmaðurinn.
Í Heimildinni kemur fram að Náttúruhamfaratryggingar Íslands vísi ábyrgð á undirbúningi, áhættumati og framkvæmd verksins á Eflu. Verkfræðingur hjá Eflu hafi aftur á móti sagt að ekkert áhættumat hefði verið gert og engin krafa hefði verið um slíkt. „Það er í raun og veru enginn sem gerir neinar kröfur, sko,“ segir verkfræðingur hjá Eflu.
Blaðið ræðir einnig við eiganda hússins Vesturhóp 29 sem lýsir furðu sinni á því að ráðist hafi verið í það verk að fylla í sprungur við húsið. „Við vildum ekki, skildum ekki og óskuðum ekki eftir þessum aðgerðum, alls ekki.“
Ítarlega er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Heimildarinnar.