Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, brást reiður við spurningum Hauks Hólm, fréttamanns RÚV, í gærkvöld, en málið varðar fyrirspurn óánægðra flokksfélaga um möguleika á því að bjóða fram viðbótarlista í nafni flokksins fyrir næstu kosningar.
Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins var haldinn um síðustu helgi og í kjölfar hans komu fréttir af bréfi sem Ásgeir Bolli Kristinsson athafnamaður sendi miðstjórn flokksins, þar sem skorað er á hana að svara því afdráttarlaust hvort hún leyfi framboð sjálfstæðisfólks á viðbótarlista, DD, ef óskað verður eftir því. Segir Ásgeir Bolli að þannig væri mun minni hætta á klofningi í flokknum í stað þess að flokksræðið væri allsráðandi. Þeir sem yrðu kjörnir af DD-lista myndu eftir kosningar ganga til liðs við þingmenn D-lista og mynda þannig einn þingflokk.
Bjarni var spurður út í þetta í kvöldfréttum RÚV í gærkvöld, eða réttara sagt var spiluð upptaka af viðtali Hauks Hólms fréttamanns við Bjarna í lok Flokksráðsfundarins. Spurður út í bréfið sagði Bjarni:
„Við tókum málið bara fyrir. Þetta er svona hýpóthetískt bréf, hvað ef einhver myndi mögulega vilja fara í eitthvert slíkt framboð, hvað myndi þá flokkurinn segja. Við bara ræddum það á fundi og það hefur ekki verið afgreitt.“
Fréttamaðurinn spurði þá: „Núna er þarna í þessu bréfi talað um að forystan hafi brugðist og hún hafi gleymt grunngildum flokksins. Heldur þú að þetta sé víðtæk skoðun almennra flokksmanna?“
Bjarni hvessti sig og svaraði: „Ég veit það ekki, þú ættir kannski að fara og spyrja þá bara.“
RÚV: „Hvað finnst þér sjálfum? Finnst þér þið hafa staðið vörð um gildin?“
Bjarni: „Mönnum er frjálst að hafa sína skoðun á því. Mín verk tala fyrir sig sjálf.“
RÚV: „Tekurðu þetta sem gagnrýni á þín störf sérstaklega?“
Við þessa spurningu fauk verulega í Bjarna sem sagði: „Hvað er þetta annað en gagnrýni á mín störf sérstaklega? Hvað ertu að meina með þessari spurningu eiginlega?“
Bjarni sagðist síðan aðspurður „auðvitað“ vera ósammála gagnrýninni.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að mælast með allt niður í 13,9% fylgi í skoðanakönnunum og hefur verið vart mikillar óánægju innan flokksins stöðu mála, meðal annars hjá ungliðahreyfingum flokksins.
Pirringur Bjarna í sjónvarpi allra landsmanna vakti umræðu á samfélagsmiðlum og Þorsteinn Sæmundsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og Miðflokksins, segir á Facebook:
„Lifandis ósköp er Bjarni pirraður.“
Líflegar umræður eru undir þessari færslu Þorsteins en þar segir Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og ráðherra: „Ég vil BB áfram.“ Má af því ráða að honum þyki formennska Bjarna ekki vera til heilla fyrir Sjálfstæðisflokkinn.