Nú er nýr málaliðahópur kominn fram á sjónarsviðið og umlykur dulúð verkefni hans í Afríku og af hverju hann er farinn heim. Kallaði Pútín hann heim?
Ætlunin var að hópurinn myndi styðja við bakið á herforingjastjórninni í Búrkína Fasó en nú er hann farinn heim eftir að hafa verið þar síðan í maí.
Herdeildin er þekktust sem „Bjarnarherdeildin“ en hún samanstendur af 100 velþjálfuðum sérsveitarmönnum. Í byrjun ágúst, þegar Úkraínumenn réðust inn í Kúrsk, var herdeildin kölluð heim eftir því sem Viktor Yermolaev, foringi hennar, sagði á Telegram á föstudaginn.
„Herdeildin lauk öllum verkefnum sínum og allir sneru heilir á húfi heim. Við misstum engan mann og stemmningin er góð! Við komum örugglega aftur, bræður, þegar við rekum óvininn út úr landinu okkar liggur leiðin til enda hinnar sérstöku hernaðaraðgerðar og síðasta Úkraínumannsins,“ sagði hann.
Bjarnarherdeildin er óskrifað blað í samanburði við Wagnerhópinn og efasemdir hafa verið uppi um að um sjálfstæða hersveit sé að ræða eða hvort hún sé á vegum rússneska varnarmálaráðuneytisins en margir sérfræðingar telja að svo sé.
Aðalsamskiptaleið herdeildarinnar við umheiminn er Telegram og segja sérfræðingar að innihaldið sé frekar auglýsingalegs eðlis en raunveruleg umfjöllun. Flestar færslurnar fjalla um hversu „góðir“ hermennirnir eru en litlar upplýsingar fylgja um hvað hersveitin er að gera hverju sinni. Þannig var það einnig í upphafi hjá Wagnerhópnum.