Tveir reyndir lögreglumenn á Tenerife hafa verið handteknir í tengslum við misferli varðandi sektargreiðslur ferðamanna. Canarian Weekly greinir frá þessu.
Mennirnir eru sakaðir um að hafa stungið í eigin vasa fjölmörgum sektargreiðslum sem þeir innheimtu hjá ferðamönnum á eyjunni fyrir ýmis smáafbrot, t.d. umferðarlagabrot. Létu mennirnir ferðamennina greiða sektirnar í reiðufé en lögðu það ekki inn á opinbera reikninga heldur nýttu í eigin þágu.
Rannsókn lögreglu á atferli lögerglumannanna tveggja hófst fyrir fjórum mánuðum. Talið er að fjársvikin nái mörg ár aftur í tímann. Lögreglumennirnir eru báðir í gæsluvarðhaldi á Tenerife.