Senn líður að því að dómsmál sem Samherji höfðaði á hendur listamanninum Oddi Eysteini Friðrikssyni verði tekið fyrir hjá breskum dómstólum. Stórfyrirtækið höfði málið eftir að Oddur sendi frá sér falska fréttatilkynningu á erlenda fjölmiðla í maí 2023 þar sem hann baðst afsökunar á meintu framfer ði Samherja í Namibíu. Þá stofnaði hann einnig heimasíðu í nafni Samherja, sem hýst var í Bretlandi, þar sem sömu skilaboðum var komið á framfæri.
Listagjörningurinn var lokaverkefni Odds í Listaháskóla Íslands en forsvarsmenn Samherja sáu lítið spaugilegt við athæfið og höfðuðu mál gegn listamanninum í Bretlandi. Ljóst er að það mun reyndast Oddi dýrt og hefur hann undanfarið árið óskað eftir framlögum frá fólki til að standa straum af kostnaðinum.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, bendir á það í morgun að breskir fjölmiðlar hafi ekki veitt gjörningi Odds neina athygli en öðru máli gegnir um dómsmálið sem framundan er. Deilir hann frétt frá breska blaðinu Guardian þar sem fjallað er um málið.
„Upphaflega afsökunarbeiðninn fékk litla athygli breskra fjölmiðla. Af-afsökunarbeiðnin og dómsmálið til að knýja Odee í gjaldþrot, er hins vegar núna á síðum Guardian/Observer. Barbara Streisand er líka listamaður. Hennar er aðallega minnst fyrir að hafa mótað áhrifamikla andhverfuleið, sem kennd er við hana, þar sem tilraun til að þagga litla rödd verður óvænt risastórt gjallarhorn fyrir boðskapinn sem fáir hefðu annars heyrt. Samherji hefur nú virkjað Streisand áhrifin og er ef til vill að gera heimsþekkt og ódauðlegt listaverk sem ella kynni að hafa vakið litla athygli,“ skrifar Kristinn.
Þá ritaði Auður Jónsdóttir sambærilega grein á dögunum í Heimildina þar sem hún sagði Samherjamenn vera á góðri leið með því að skipa sér stóran sess í íslenskri listasögu með því að „sprikla í neti listaverks Odds“ og stuðla þannig að vexti þess.