Heimir Sverrisson leikmyndahönnuður minnist þess að í dag eru 39 ár síðan frændi hans, Þorvaldur Breiðfjörð Þorvaldsson, var stunginn með hníf fyrir utan skemmtistaðinn Villta tryllta Villa við Skúlagötu. Þorvaldur var aðeins 15 ára gamall og gerandinn ári eldri.
„Í gær var ung stúlka borin til grafar sem hlaut þessi sömu örlög, það sorglega mál hefur rifið upp gömul sár og ég hef hugsað mikið til aðstandenda og vina þessarar ungu stúlku síðustu daga. Sem og fjölskyldu frænda míns.
Ég lít til baka. Öll þessi 39 ár hefur þessi skelfilegi atburður árið 1985 haft gríðarleg áhrif á líf svo margra. Langt út fyrir það sem í dag er reynt að mæta með áfallahjálp og sálusorg. Það eru langtímaáhrifin sem svona harmleikur hefur á nánustu aðstandendur og þeirra líf sem ég hef hugsað mikið um að undanförnu,“
segir Heimir sem sjálfur var 17 ára gamall árið 1985 og vitni að árásinni á frænda sinn.
Heimir segir árásina hafa haft gríðarleg áhrif á hann sem ungan mann og svona áföll hafa langtímaáhrif á fólk, og alla aðstandendur þeirra einstaklinga sem í hlut eiga. Þó mörg ár séu liðin frá andláti frænda hans gæti afleiðinga andláts hans enn þá.
„Það verður að grípa þau sem eftir lifa,“ segir Heimir í færslu á Facebook.
„Mín upplifun þessa nótt spilast brotakennd og gloppótt og hefur fylgt mér síðan þessa septembernótt árið 1985.
Það hafði gríðarleg áhrif á mig sem ungan mann að verða vitni að þessum atburði, skelfingin sem greip um sig þegar það var orðið ljóst hvað þetta var alvarleg árás. Að horfa upp á frænda minn falla í götuna með skelfingarsvip í andlitinu sem ég gleymi aldrei. Að vera rifinn af honum af lögreglu og hent í burtu, óbærileg biðin eftir sjúkrabíl sem virtist aldrei ætla að koma. Að fá þær fréttir undir morgun að hann væri látinn. Skelfingarsvipurinn í andlitum foreldra hans og og systkina. Og svo þögnin sem fylgdi og hefur fylgt síðan. Reiði og sjálfsásakanir sem sækja á, jafnvel eftir allan þennan tíma.“
Heimir segir marga aldrei hafa náð sér eftir áfallið og það hafi brotist út með mismunandi hætti. Í kjölfar árásarinnar hafi ástvinir misst fleiri en Valda frænda hans, andlát sem tengd eru árásinni hörmulegu:
„Það voru margir sem náðu sér aldrei eftir þennan atburð, sálræn áhrif brjótast út í alls konar myndum sem hafa haft alvarlegar afleiðingar, þunglyndi, sjálfsvíg og listinn heldur áfram. Við höfum misst fleiri sem ég tengi beint við þetta atvik og það er svo óendanlega sorglegt.
Svona atburðir hafa langtímaáhrif á fólk, langur tími er liðinn frá andláti Valda en afleiðinganna gætir enn. Það verður að grípa þau sem eftir lifa.“
Heimir segir að lokum að vonandi sjái sem flestir sér fært að styrkja minningarsjóð Bryndísar Klöru:
„Búið er að stofna minningarsjóð í nafni Bryndísar Klöru Birgisdóttur, sem ég vona að allir sem sjá sér það fært styrki. Leggjum við hlustir, þetta varðar okkur öll. Blessuð sé minning Valda frænda míns og Bryndísar Klöru Birgisdóttur.“
Minningarsjóður Bryndísar Klöru
Kennitala: 430924-0600
Bankareikningur: 515-14-171717
Unglingaskemmtistaðurinn Villti tryllti Villi opnaði við Skúlagötu 30 í Reykjavík um verslunarmannahelgina árið 1982. Þann 20. september 1985 kom frétt í DV um að staðnum hefði verið lokað. „Sem betur fer er þessu lokið,” sagði Páll Eiríksson yfirlögregluþjónn í samtali við DV á þeim tíma. „Starfseminni hefur verið hætt og eigendurnir ætla að opna vínveitingastað. Páll sagði að inni á Villta tryllta Villa hefði ástandið yfirleitt verið gott. Öllum skýrslum bæri saman um það. Vandamálið væri unglingarnir sem söfnuðust saman fyrir utan staðinn.