ASÍ, BSRB og KÍ eru skipuleggjendur mótmælanna og er markmiðið að stjórnvöld sýni í verki samstöðu með heimilum landsins nú þegar þrálát verðbólga og háir vextir eru farnir að bíta sumar fjölskyldur fast.
Yfirskrift Staksteina dagsins í dag er: Söguleg mótmæli gegn sjálfum sér.
Þar er bent á að hinsti þingvetur fyrir kosningar sé hafinn og flest sé samkvæmt hefðbundinni dagskrá, til dæmis sé starfsáætlun þingsins komin fram, þingmálaskráin á leiðinni og þingsetning í dag.
„Fleira er þó samkvæmt hefðbundinni dagskrá, því forysta ASÍ, BSRB og Kennarasambandsins boða til „sögulegra“ mótmæla á Austurvelli síðdegis gegn „skeytingarleysi stjórnvalda gagnvart hárri verðbólgu og vöxtum“. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir mótmælin söguleg þar sem langt sé liðið frá því stór heildarsamtök launafólks mótmæltu síðast. Já, jæja,“ segir staksteinahöfundur.
„Ekki er þó krafist lægri ríkisútgjalda í viðureign við verðbólgu. Verkó lítur ekki heldur svo á, að hún beri nokkra ábyrgð með óraunhæfum kaupsamningum umfram framleiðni og útflutningsverðmæti. Öðru nær, því þar er enn í gildi slagorðið „Það er nóg til“ og ætlast til þess að ríkisstjórnin afnemi sjálfstæði Seðlabankans og handstýri peningamálastefnunni í trássi við lög,“ segir staksteinahöfundur og bætir við að svo sé að sjá hvernig úr rætist.
„Ragnar Þór hefur margsinnis hvatt til þess að fólkið „rísi upp“ og krefjist kosninga. Með misjöfnum árangri, en í fyrravor efndi hann til sögulegra fjöldamótmæla allra sem hefðu „fengið nóg af einhverju“. Þá komu um fjörutíu manns á Austurvöll.“