Að morgni 12. júlí hrapaði Sukhoi Superjet 100 vél í tæplega 100 km fjarlægð frá Moskvu. Þetta var nútímaleg rússnesk farþegaflugvél sem var nýkomin úr þjónustu hjá flugvirkjum.
Vitni segja að eldur hafi komið upp í vélinni þegar hún var á flugi. Engir farþegar voru um borð en allir þrír áhafnarmeðlimirnir létust. Vélin var í eigu Gazpromavia sem er dótturfyrirtæki orkufyrirtækisins Gazprom.
Slysið hratt strax af stað umræðu í rússneskum fjölmiðlum og meðal þeirra sem ferðast flugleiðis, umræðu sem hefur kraumað undir yfirborðinu árum saman: Eru Superjet vélarnar öruggar og hvaða áhrif hefur einangrun Rússlands frá Vesturlöndum á flugiðnaðinn?
Mat rússneskra sérfræðinga er ekki beinlínis til þess fallið að róa almenna flugfarþega. „Ástæðan getur verið eftirlíkingar af varahlutum eða einfaldlega slæleg vinnubrögð flugvirkja. Eitthvað hefur verið tekið úr, sett aftur á sinn stað og ekki skrúfað fast,“ sagði Vadim Lukasjevits, sérfræðingur í flugmálum, í samtali við Novyje Izvetija skömmu eftir slysið. Hann sagði að það sé hættulegra að fljúga nú en áður en Rússar réðust inn í Úkraínu.