Móðir sem ferðaðist með 12 ára syni sínum var handtekin á Keflavíkurflugvelli í júlí grunuð um fíkniefnainnflutning. Konan var með 160 pakkningar af eiturlyfjum í meltingarvegi, meðal annars kókaín.
Mæðginin sem voru ein á ferð komu til landsins frá Spáni.
„Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum hefur málið til rannsóknar en drengurinn er í öruggum höndum barnaverndaryfirvalda á Suðurnesjum,“ segir í tilkynningu á vef lögreglunnar. Rannsókn málsins stendur yfir og miðar vel.
Drengurinn er ekki talinn tengjast innflutningi fíkniefnanna, en í tilkynningu segir að ekki sé ólíklegt að hann hafi verið með í för til þess að villa um fyrir tollgæslu og lögreglu.
Lögreglan segir ýmislegt reynt til að koma fíkniefnum inn í landið. Ekki verða veittar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.