Kristján Berg fisksali, oft kallaður fiskikóngurinn, segir að fiskur sé ódýrasta og hollasta fæðan sem hægt sé að kaupa inn fyrir fjölskylduna í dag.
„Engin aukaefni, engin þyngingarefni, engin niðurgreiðsla og fiskur er villibráð. Það er engin villibráð á þessu verði, hvorki hér né annarsstaðar í heiminum,“ segir Kristján í pistli þar sem hann gagnrýnir harðlega niðurgreiðslur á lambakjöti og hátt verðlag á vörunni.
Kristján segir að ef fiskur nyti sömu ríkisstyrkja og lambakjöt þá myndi kílóið kosta 500 krónur út úr verslun Fiskikóngsins. Lambakjötið sé niðurgreitt til útflutnings og síðan sé þjóðin pínd til að greiða fyrir það „glæpaverð“. Kristján segir ennfremur:
„Persónulega finnst mér lambakjöt vera afbragðsgott, en verðið sem íslensku þjóðinni er boðið uppá er galið, miðað við að styrkir til íslenskra fjárbænda eru 8-9 milljarðar á hverju einasta ári.
Ef íslenskur fiskur yrði niðurgreiddur um sömu fjárhæð, þá myndu ýsuflök kosta 500 kr út úr verslun okkar.“
Færsluna má lesa með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.