Sigrún Erla Ólafsdóttir slasaðist alvarlega á heimleið sinni eftir kvöldvakt í álveri Alcoa á Reyðarfirði.
Slysið varð á miðvikudag í síðustu viku, RÚV greinir frá.
Sigrún Erla tók rútu sem keyrir starfsfólk heim af vaktinni til Egilsstaða. Þegar hún var að ganga út úr rútunni lokaðist hurðin á hana sem varð til þess að hún datt út um dyrnar og varð undir afturdekki rútunnar þegar hún ók af stað.
Sigrún Erla var flutt með sjúkraflugi á sjúkrahúsið á Akureyri. Hún fótbrotnaði á báðum fótum og húðin á vinstri fæti flettist af frá ökkla og upp að hné. Við þetta urðu skemmdir á vöðvum, því fylgir mikil sýkingarhætta og ekki útséð um hvort hún missi fótinn.
Fjölskylda Sigrúnar Erlu segir hana ótrúlega bratta miðað við aðstæður, hún hefur gengist undir aðgerð á fæti og á eftir að fara í fleiri. Sigrún Erla liggur enn á spítala, en langt bataferli er framundan.
Rannsókn á slysinu er á frumstigi að sögn Hjalta Bergmars Axelssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Austurlandi. Vinnueftirlitið hefur verið upplýst um málið og rannsókn slyssins er einnig komin í ferli hjá ÍS-Travel, sem sér um akstur áætlunarferða fyrir starfsfólk á álverssvæðinu á Reyðarfirði til Egilsstaða, sem og Alcoa.
„Þetta er auðvitað hræðilegt slys sem er til rannsóknar hjá lögreglu. Það setur sömuleiðis í gang ferla hjá okkur innanhúss sem miða að því að upplýsa um tildrög og finna fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir að sambærilegt geti endurtekið sig,“ segir Vigdís Diljá Óskarsdóttir, samskiptastjóri Alcoa Fjarðaáls.
Nánar má lesa um málið á RÚV.