fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Fréttir

Eignuðust barn og höfðu ekki efni á að flytja heim til Íslands – „Fjölskyldunni finnst þetta auðvitað leiðinlegt“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 21. júní 2024 12:00

Dóra Sóldís og Sindri árið 2019 áður en börnin komu til sögunnar. Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjónin Dóra Sóldís Ásmundardóttir og Sindri Ingólfsson hafa búið um nokkurra ára skeið í Osló Noregi og eiga tvö börn, Flóka sem er tveggja og hálfs árs og Öglu Guðrúnu sem er þriggja mánaða. 

Hjónin nutu lífsins í Noregi en eftir að Flóki fæddist haustið 2021 kom löngun hjá þeim til að flytja aftur til Íslands og vera nær ömmum, öfum og vinum. „Það væri voðalega notalegt að geta skroppið í mat til mömmu og pabba á sunnudegi og fengið pössun eftir vinnu á þriðjudegi. Við fórum að velta fyrir okkur möguleikanum að flytja aftur heim.“

Dóra segir að þeim hafi báðum boðist spennandi vinnutækifæri, húsnæði myndi vera sársaukafullt en reddast, reikningsdæmið stoppaði hins vegar á leikskólamálum.

„Án dagvistunar getum við ekki bæði unnið. Við áttum ekki efni á taka langt launalaust orlof. Við áttum í rauninni ekki efni á að flytja heim til Íslands. Matur hjá mömmu og pabba á sunnudögum og ömmudekur eftir leikskóla á þriðjudögum bíður því betri tíma,“ segir Dóra í grein á Vísi. Þar segist hún fagna umræðunni um stöðu ungra barnafjölskyldna á Íslandi í dag, enda löngu orðið ljóst að staðan er grafalvarleg.

Sjá einnig: Þingmaður spyr hvort við höfum efni á barneignum – „Á ekki að vera kvíðavaldur í sjálfu sér að eignast börn“

Fjölskyldunni finnst ástandið leitt en sýnir því skilning

Þremur árum seinna eru því hjónin enn í Noregi og annað barn hefur bæst við fjölskylduna. Dóra er í fæðingarorlofi með yngra barnið sem fæddist í mars, og hún er jafnframt hálfnuð með fjögurra ára doktorsnám í umhverfissálfræði. Sindri vinnur sem hugbúnaðarverkfræðingur hjá Cisco systems.

„Þetta var kerfisvandamál þegar við ætluðum að koma heim en við höfum bæði fengið svo góð tækifæri hérna núna að við erum auðvitað ekkert á leið heim,“ segir Dóra Sóldís í samtali við Vísi. 

„Þegar við könnuðum starfsmöguleika heima fyrir þremur árum fengum við bæði spennandi tilboð en komumst fljótlega að því að við gátum ekki komið heim út af leikskólaplássi. Þá var alveg eins gott að finna sér eitthvað hér.

Fjölskyldunni finnst þetta auðvitað leiðinlegt. En þau styðja okkur í því sem við gerum. Þau vona auðvitað að á endanum flytjum við aftur heim. Það er von allra en maður veit alveg að eftir því sem maður býr lengur í útlöndum er líklegra að maður ílengist.“ 

 „Í dag, tæpum þremur árum seinna eru bæði ég og maðurinn minn búin að fá spennandi tækifæri í Noregi og göngum að því vísu að fá leikskólapláss fyrir börnin okkar. Hvort og hvenær við komum heim er enn óráðið. Því miður horfum við til Íslands og erum fegin að þurfa ekki að standa í því púsluspili sem það er að eiga ungt barn á Íslandi í dag. Við erum bara ein af þeim mörg þúsund íslensku barnafjölskyldum sem búa erlendis,“ segir hún í grein sinni.

Fjölskyldan hefur kynnst Íslendingasamfélaginu í Noregi og líkar það vel. Þau eru búin að kaupa sér íbúð með talsvert betri kjörum en bjóðast á Íslandi, ganga að góðu fæðingarorlofi og leikskólaplássi vísu. Dóra Sóldís segir í samtali við Vísi að þau sjái á öðrum að flestir ætla sér aðeins að stoppa stutt en svo fæðist börn, fólk kynnist samfélaginu og „lífið gerist“. 

„Okkur líður mjög vel hérna og það er alveg skrítið að pæla í því að við vorum bara nánast búin að tilkynna fjölskyldunni að við værum að flytja heim fyrir þremur árum.“

Segir hún það ekki spennandi að koma heim og eiginlega ekki séns að geta flutt heim núna. „Okkur dettur það ekki í hug. Við þurfum eiginlega bara að klára barneignarpakkann og leikskólapakkann í Noregi áður en við förum að pæla í því að koma aftur heim.“

Staðreyndir barnafjölskyldna í Noregi

Í lok greinarinnar setur Dóra Sóldís fram nokkrar staðreyndir sem sýna muninn á aðstöðu barnafjölskyldna á Íslandi og Noregi. Skorar hún á íslensk stjórnvöld til þess að gera Ísland að aðlaðandi kosti fyrir ungar barnafjölskyldur

„- Fæðingarorlof byrjar á 37. viku meðgöngu í Noregi og konur komast því hjá því að höggva á veikindaleyfi.

– Tekjuþak í fæðingarorlofi er u.þ.b 820 þúsund krónur íslenskar á mánuði í Noregi. Hinsvegar er það orðið algent að vinnuveitandi borgi mismun milli launa einstaklings fyrir fæðingarorlof og fæðingarorlofsgreiðslna.

– Ef barnið er 12 mánaða og ekki á leikskóla veitir norska ríkið 7500 NOK styrk á mánuði (u.þ.b. 100 þúsund kr) til 2 ára aldurs

– Skv vinnuverndarlögum í Noregi er atvinnurekandi skuldbundinn til þess að veita mæðrum með barn á brjósti leyfi í a.m.k. 1 klukkustund á dag til gefa barninu brjóst þar til barnið nær 2 ára aldri (Hjá hinu opinbera eru þetta 2 klst á dag)

– Réttur til leikskólapláss í Noregi.

– Börn fædd í janúar til ágúst fá (a.m.k.)leikskólapláss í ágúst sama ár og þau verða 12 mánaða.

– Börn fædd í september-nóvember fá (a.m.k) leikskólaplássi þann mánuð sem þau verða 12 mánaða.

– Börn fædd í desember fá (a.m.k) leikskólaplássi í ágúst árið eftir að þau verða 12 mánaða (Það er vissulega mjög óheppilegt að eignast desemberbarn í Noregi).“

Lesa má grein Dóru Sóldísar hér. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Flutningur ráðuneytanna langt kominn í glæsihýsið við Austurbakka – Óvíst um endanlegan kostnað

Flutningur ráðuneytanna langt kominn í glæsihýsið við Austurbakka – Óvíst um endanlegan kostnað
Fréttir
Í gær

Bandarískur blaðamaður dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir njósnir í Rússlandi

Bandarískur blaðamaður dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir njósnir í Rússlandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einar Stef ráðinn markaðsstjóri Blikk

Einar Stef ráðinn markaðsstjóri Blikk
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mogginn gagnrýnir lögreglustjóra harðlega – „Ljóst að Höllu Bergþóru lög­reglu­stjóra varð illi­lega á í mess­unni“

Mogginn gagnrýnir lögreglustjóra harðlega – „Ljóst að Höllu Bergþóru lög­reglu­stjóra varð illi­lega á í mess­unni“