Var hann einn af máttarstólpum hins gríðarsterka liðs Víkings undir stjórn Bogdan Kowalczyk en umrætt lið var valið besta handboltalið Íslandssögunnar. Var það einmitt í Víkingi sem hinn kunni fjölmiðlamaður Heimir Karlsson kynntist honum en hann minnist hans með hlýhug í færslu á Facebook-síðu sinni.
„Ég var heppinn að fá að vera lítill hluti af besta handboltaliði handboltasögu Íslands og spila með mörgum af bestu handboltamönnum Íslands. Oft hef ég hugsað til þessara tíma og í þeim minningum kemur Árni oft upp í hugann,” segir Heimir og bætir við að Árni hafi verið límið í þessu liði.
„Ekki bara firnasterkur varnarmaður og hinn ágætasti línumaður, heldur einstakur karakter og leiðtogi. 11 árum eldri en ég og margfalt reynslumeiri, sýndi hann unga handboltamanninum aldrei yfirlæti eða neitt í þeim dúr, heldur miklu fremur stuðning og skilning.“
Heimir segir að Árni hafi komið honum fyrir sjónir sem traustur, vitur og sanngjarn maður og einstök fyrirmynd.
„Hann var skemmtilegur utan vallar, en ábyrgðarfullur innan vallar. Þar kom ekkert kæruleysi til greina. Árni kom mér einnig fyrir sjónir sem greindur maður, enda lögðum við allir við hlustir þegar hann talaði. Árni var einstaklega geðugur maður. Mínar innilegustu samúðarkveðjur til aðstandenda Árna Indriðasonar. Blessuð sé minning Árna Indriðasonar,“ segir Heimir Karlsson.
Árni lætur eftir sig eiginkonu, fjögur börn og átta barnabörn.