Miðinn var seldur á á bensínstöð í Encino og var annar af tveimur vinningsmiðum þennan daginn. Potturinn var býsna stór og getur miðaeigandinn vænst þess að fá í sinn hlut 197,5 milljónir dollara, rúma 27 milljarða króna.
Enn sem komið er hefur miðanum ekki verið skilað inn og reglum samkvæmt hefur viðkomandi eitt ár frá útdrætti til að gefa sig fram. Ef fer sem horfir munu milljarðarnir 27 renna vinningshafanum úr greipum á laugardag. Vinningstölurnar voru 21, 26, 53, 66 og 70 auk ofurtölunnar sem var 13. Hinn miðaeigandinn er löngu búinn að gefa sig fram.
Í frétt KTLA kemur fram að vinningurinn renni í almenningsskólakerfið í Kaliforníu ef peningarnir verða ekki leystir út af sigurvegaranum fyrir helgina.
Þetta er ekki eini stóri lottóvinningurinn sem rennur brátt úr gildi því vinningshafi í Ohio, sem vann 138 milljónir dollara, rúma 19 milljarða króna, þann 30. desember í fyrra hefur ekki enn komið fram. Sá miði var keyptur í Walmart í Huber Heights skammt frá borginni Dayton.