Þetta segir Finnbogi Jónasson, sem gegnir tímabundið starfi aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra, í samtali við Morgunblaðið í dag.
„Almennt getum við ekki svarað því hvort fylgst sé með ákveðnum einstaklingum: Við reynum hins vegar að fylgjast með eftir bestu getu því umhverfi sem hefur áhrif á hættumat greiningardeildar, bæði vegna skipulagðrar brotastarfsemi og hryðjuverkastarfsemi,“ segir Finnbogi.
Í frétt blaðsins er vísað í viðtal Stefáns Einars Stefánssonar, þáttastjórnanda Spursmála á mbl.is, við Svandísi Svavarsdóttur á dögunum, en þar var upplýst að Palestínumaður að nafni Abd al-Rahman al-Zac væri með tengsl við palestínsku hryðjuverkasamtökin Íslamska Jíhad. Maðurinn dvelur enn hér á landi þrátt fyrir að hafa verið synjað um alþjóðlega vernd.
Í þættinum birtist mynd af Abd í líkfylgd hryðjuverkaleiðtogans Bahaa Abu el-Atta sem var drepinn í loftárás árið 2019. Gekk hann þar fremstur í flokki með steyttan hnefa.