Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað fjölmiðlanefnd og íslenska ríkið af kæru fjölmiðlafyrirtækisins Sýnar. Sýn krafðist þess að sú ákvörðun fjölmiðlanefndar frá árinu 2023 um að leggja á fyrirtækið 500.000 króna stjórnvaldssekt fyrir duldar auglýsingar í raunveruleikaþáttunum um LXS-samfélagsmiðlastjörnurnar yrði ógilduð en á það féllst dómstóllinn ekki.
Umræddar duldar auglýsingar snerust meðal annars um umfjöllun vinkvennanna um vinnustaði sína, World Class og Heklu, en fyrirtækin og vörur eða þjónusta þeirra voru sýnd í afar jákvæðu ljósi.
Sjá einnig: Sýn brotleg vegna þáttanna um LXS-dívurnar – Þarf að greiða hálfa milljón í sekt
Málflutningur Sýn var á þá leið að það hefði ekki verið markmið umfjöllunarinnar að auglýsa umrædd fyrirtæki og engin greiðsla hafi borist fyrir hinar meintu auglýsingar.
Kristrún Kristinsdóttir, dómari í málinu, komst þó að þeirri niðurstöðu að óumdeilt væri að um dulin viðskiptaboð væri að ræða, jafnvel þó ósannað væri að greitt hefði verið fyrir birtinguna.
Sýknaði hún því fjölmiðlanefnd og íslenska ríkið af kröfu Sýnar.