Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar, er ósáttur við úthlutun ríkisins á rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla. Hann bendir á að úthlutunarkerfið sé óréttlátt og hygli stórum og rótgrónum miðlum á kostnað minni miðla.
Gunnar Smári skrifar á Facebook:
„Ég veit ekki með þessa meðferð á almannafé. Til hvers er verið að gefa útgerðinni 123 milljónir til að halda úti Mogga eða bröskurunum sem eiga Viðskiptablaðið 40 milljónir, menn sem reka starfsmannaleigur? Af þessu fé fer 78% í það sem kalla má almenna fjölmiðlun, það er ekki byggðablöð eða tímarit/vefur um séráhuga. Og af því sem fer í almenna fjölmiðlun rennur 3/4 til auðfólks sem keypt hefur fjölmiðla til að stýra umræðunni á Íslandi. Er það virkilega aðkallandi verkefni, að styðja auðfólk til að hafa enn meiri áhrif á samfélagið?
Samstöðin fær þarna lítinn styrk, um 5% af því sem Mogginn fær og um 15% af því sem Viðskiptablaðið fær. Þetta er í raun brandari, frekar steiktur.“
Gunnar bætir við í athugasemd að hann hafi heimsótt menningarmálaráðuneytið í sumar. Þar benti hann á að úthlutunarkerfi styrkjanna sé óréttlátt. Það hygli stóru fjölmiðlunum og virki í raun sem aðgangshindrun fyrir nýja og minni miðla. Útgefandi Morgunblaðsins, Árvakur, fái endurgreiddan kostnað upp á um það bil fjórðung af ritstjórnarkostnaði næsta árs. Samstöðin, sem fékk í sinn hlut tæpar 6,4 milljónir fái bara endurgreiddan um 6 prósent af ritstjórnarkostnaði. Ástæðan fyrir þessu er að styrkur fyrir næsta ár taki mið af kostnaði ársins áður. „Það hentar fjölmiðlum í hægri en öruggri hrörnun en alls ekki fjölmiðlum sem vaxa hratta vegna þess hversu vel fólk tekur við þeim. Líklega voru lögin samin á skrifstofu Árvakurs. Miðað við fyrirsjáanlega veltu á næsta ári ætti Samstöðin að fá 25 milljónir en ekki sex.“
Gunnar vakti líka athygli á málinu inni á Facebook-hóp Sósíalistaflokks Íslands að aðalmarkmið stjórnvalda sé að styrkja útgerðina á bak við Morgunblaðið. „Nei, sko. Samstöðin fær styrk eins og aðrir fjölmiðlar frá ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. En bara 5% af því sem Mogginn fær. Aðalmarkmið stjórnvalda er að styrkja grey útgerðina sem gefur út Moggann. Hún styður líka stjórnina. Og stjórnin styður útgerðina.“
Í athugasemd bætir Gunnar við að Viðskiptablaðið hafi fengið rúmar 40 milljónir „svo þeir geti haldið áfram að skrifa skoðanadálka gegn frelsisbaráttu almennings, baráttu við að losna undan braskinu og okrinu. Þeir fá 6-7 sinnum meira en Samstöðin, eru samkvæmt ríkisstjórn Bjarna 6-7 sinnum mikilvægara fyrirbrigði en Samstöðin.“
Rúmlega hálfur milljarður kom til úthlutunar í ár til 27 fjölmiðla. Úthlutun skiptist með eftirfarandi hætti:
*DV er í eigu Fjölmiðlatorgs ehf.