fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Fréttir

Móðir Gunnars Smára þurfti að niðurlægja sig fyrir framan fulltrúa Sjálfstæðisflokksins – „Fátækt er harmur“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 30. nóvember 2024 11:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Smári Egilsson, frambjóðandi Sósíalistaflokks Íslands, segir að pólitík sé persónuleg. Reynsla landsmanna móti vilja þeirra til að breyta samfélaginu. Hann hefur persónulega reynslu af því hvernig aðgerðir og skilningsleysi stjórnvalda hafa lyft eða kúgað fólk og fjölskyldur. Þessi reynsla mótaði hann og er ástæða þess að hann er sósíalisti í dag.

Gunnar deilir dæmi úr sögu fjölskyldu sinnar á Facebook til að útskýra hvað mótaði hans pólitík.

Von um betri heim

Gunnar Smári rekur að hann hefur búið víða um borgina. 8 ára gamall hafði hann þegar búið á fjórum stöðum og flutti svo í blokk í Ljósheimum. Fjölskyldan var fátæk en slíkri stöðu fylgja gjarnan tíðir flutningar.

„Við vorum fjölskylda sem sjúkdómur, skilnaður og veikt öryggisnet hafði þrýst niður í fátækt. Og fátæktinni fylgdu tíðir flutningar, ný hverfi, nýir skólar, nýir vinir – allt sem rótleysið býður upp á. Hin fátæku fá svo margt með fátæktinni.

Vogahverfið var barnmargt á þessum árum. Við börnin gengum út í okkar eigin veröld sem hin fullorðnu þekktu lítið til en það var líka pláss fyrir okkur í heimi hinna fullorðnu. Bókasafnið í Sólheimum var hljóðlát félagsmiðstöð, svo lítið að ég ákvað að lesa allar bækurnar og byrja á bókinni lengst til vinstri í efstu hillu í fremsta skáp. Það var mikið sungið í skólanum og þar voru tannlæknar sem sinntu börnunum án endurgjalds. Það var hráslagi í mannlífinu á þessum árum en það var líka vísir að skárra samfélagi, von um betri heim.“

Fátækt verkafólk dreymdi um að komast í eigið húsnæði og hætta að lifa eins og flóttafólk í eigin landi. Þegar fjölskyldan flutti í Ljósheima var byrjað að byggja upp Breiðholtið.

„Fjórum árum fyrr hafði Alþingi fallist á samning Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins um að 1% launaskattur rynni til framkvæmdanefndar sem falið var að leysa húsnæðiskreppuna, sem gróf undan lífskjörum og öryggi fólks með lágar tekjur. Framkvæmdanefndin stóð fyrir nýjungum og byggði upp íbúðir sem láglaunafólk réð við að kaupa og Byggingasjóður veitti fólki lán á hagfelldum vöxtum.“

Þurfti að niðurlægja sig fyrir framan fulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Eftir fjögur ár í Ljósheimum fékk móðir Gunnars vilyrði fyrir íbúð í Unufelli og fluttu þau þangað ári síðar. Í millitíðinni höfðu bræður Gunnars farið að heiman þó að þeir væru enn ungir að aldri. Móðir hans hafði gengið aftur í hjónaband og eignast með honum son. Fjölskyldan hafði því breyst mikið svo þegar Gunnar var kominn í Breiðholtið fannst honum hann hafa misst fjölskyldu sína.

„Fjölskyldan hafði breyst og þegar við komum í Breiðholti fannst mér ég hafa misst mína fjölskyldu. Þegar lífsbaráttan var hörð þá hertust líka böndin. Við bræðurnir og mamma vorum eins og lítill herflokkur á bak við víglínu óvinarins, lifðum af með því að standa saman. Fyrsta árið í Breiðholti var ég áfram í Vogaskóla, fór síðan einn vetur í Fellaskóla og síðan í heimavistarskóla í Reykjanesdjúpi og kom aldrei aftur heim.“

Gunnar rifjar upp að þegar móðir hans var að sækja um verkamannabústað þurfti hún að fara til fundar við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Þetta var gífurlega niðurlægjandi reynsla, sem þó varð til þess að fjölskyldan upplifði loksins öryggi.

„Ég man þegar mamma kom heim í Ljósheimana eftir að hafa þurft að hitta fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í úthlutunarnefnd verkamannabústaða. Eins og annað fátækt fólk hafði hún þurft að niðurlægja sig fyrir framan þennan mann, sýna sig brotna og bjargarlausa að biðja sterka manninn um náð. Hún lokaði útidyrahurðinni og lamdi svo töskunni í vegginn, fór úr kápunni og ræddi það aldrei hvað þeim fór á milli.

Íbúðin í verkamannabústöðunum breytti lífi mömmu, færði henni efnahagslegt öryggi eftir margra ára basl, flutninga milli leiguíbúða og nagandi afkomukvíða, reynandi að brauðfæða okkur strákana og gefa okkur öryggi, gleði og gott líf. Í endurliti man ég eftir mömmu þreyttri, bugaðri, eins og í viðvarandi áfallastreitu. Auðvitað ekki alla daga, en nógu marga svo að lítill drengur gat saknað mömmu sinnar þótt hún væri fyrir framan hann. En þegar árin liðu upp í Unufelli sá ég mömmu lifna við, verða glaðari og bjartari, eftir því sem þrúgandi ótti hinna fátæku lyftist af öxlum hennar.“

Þess vegna er Gunnar sósíalisti

Gunnar rekur að lífið sé flókið og hamingjan samanstandi af mörgum ólíkum þráðum sem fæstir koma stjórnvöldum við. Fleiri geti þó upplifað aðstæður fyrir hamingju ef stjórnvöld tryggja þeim slík tækifæri.

„Fjárhagslegir erfiðleikar, fátækt og basl leggst yfir líf fólks eins og mara og dregur úr því afl. Fátækt er harmur, en líka tilgangslaus sóun og grimmd sem beinist að saklausum.

Pólitík er persónuleg. Vilji okkar til að breyta samfélaginu byggir á reynslu okkar og hvernig við túlkum hana. Ég gæti tekið fleiri dæmi úr fjölskyldusögu minni sem sýna hvernig aðgerðir og aðgerðarleysi stjórnvalda hafa lyft eða kúgað fólk og fjölskyldur. Það er út af þessum skilningi sem ég er sósíalisti og býð mig fram til að breyta Alþingi svo það starfi í þágu þeirra sem verða harðast fyrir óréttlæti.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Bergur Felixson er látinn

Bergur Felixson er látinn
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Pútín hækkar „ónothæfan“ hershöfðingja í tign

Pútín hækkar „ónothæfan“ hershöfðingja í tign
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Kolbrún svekkt út í RÚV og segir að stjörnur kosningavökunnar hafi gleymst – „Vonbrigði hversu lítið pláss þeir fengu“

Kolbrún svekkt út í RÚV og segir að stjörnur kosningavökunnar hafi gleymst – „Vonbrigði hversu lítið pláss þeir fengu“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Pawel segir liðna kosningabaráttu ekki þá sem hann sé stoltastur af – „Þarna var fylgið botnfrosið í 3 prósentum“

Pawel segir liðna kosningabaráttu ekki þá sem hann sé stoltastur af – „Þarna var fylgið botnfrosið í 3 prósentum“
Fréttir
Í gær

Þorgerður segir að Kristrún eigi að fá umboðið

Þorgerður segir að Kristrún eigi að fá umboðið
Fréttir
Í gær

Joe Biden harðlega gagnrýndur eftir að hann náðaði son sinn

Joe Biden harðlega gagnrýndur eftir að hann náðaði son sinn
Fréttir
Í gær

Býst við óvæntum vendingum og að þessir þrír flokkar myndi saman ríkisstjórn

Býst við óvæntum vendingum og að þessir þrír flokkar myndi saman ríkisstjórn
Fréttir
Í gær

Rússneskum efnahag blæðir – „Versta hugsanlega útkoman“

Rússneskum efnahag blæðir – „Versta hugsanlega útkoman“