Íbúi í Vallahverfinu segir fyrirtækið Carbfix gaslýsa almenning hvað varðar hina fyrirhuguðu niðurdælingarstöð Coda Terminal. Niðurdælingin, meðal annars á snefilefnum af blásýru og öðrum efnum, muni eiga sér stað í aðeins nokkur hundruð metra fjarlægð frá heimilum fólks og vatnsverndarsvæðum.
Coda Terminal verkefnið hefur reynst mjög umdeilt og íbúar á Völlunum eru margir hverjir mjög uggandi yfir því sem þeir segja vera risastórt tilraunaverkefni nálægt mannabyggð. Einkum hefur fólk áhyggjur af vatnsbúskapnum neðanjarðar, en þegar kolefni er dælt niður þarf að dæla miklu magni vatns í burtu.
Vegna mótmæla almennings hefur bæjarstjórn dregið í land með verkefnið. Yfirlýsing hefur verið gefin út um að verkefnið verði ekki samþykkt nema að undangenginni íbúakosningu um málið. Þess vegna hafa fulltrúar Carbfix auglýst verkefnið og ritað greinar um það. Meðal annars Ólafur Einarsson, samskiptastjóri Carbfix, í morgunblaðinu í lok október undir yfirskriftinni „Afeitrum umræðuna.“
„Tíðar endurtekningar á því að verið sé að flytja inn skaðlegan úrgang eða rusl og dæla honum niður eru rangar,“ sagði Ólafur í greininni og vísaði í umhverfismatsskýrslu Eflu um að efnagreining myndi fara fram fyrir affermingu kolefnisins í Straumsvík til að ganga í skugga um að samsetning efnisins uppfylli skilgreiningu í starfsleyfi.
„Af þessu má sjá að stíft regluverk er til staðar til að fyrirbyggja neikvæðu áhrifin sem fyrrnefnd greinaskrif snúast um. Carbfix hefur þegar dælt niður koldíoxíði og brennisteinsvetni í yfir áratug á Hellisheiði án vandkvæða,“ sagði Ólafur.
Þá vísað hann einnig í umsögn heilbrigðiseftirlits um Coda Terminal þar sem sagt var að ekki væri talin mikil hætta á að snefilefni hafi áhrif á strandsjávarhlotið þar sem hámarksstyrkur þeirra væri lágur.
Við þessa grein skrifar Elínrós Erlingsdóttir, svæfingahjúkrunarfræðingur og íbúi í Vallahverfinu, svargrein í dag á Vísi og sakar fyrirtækið um að „gaslýsa almenning.“
„Ef þrjár milljónir tonna af koldíoxíð munu vera flutt inn árlega til Íslands frá stóriðju Evrópu þá munu fylgja því um 5700 tonn af öðrum efnum sem sum hver geta verið skaðleg mönnum og náttúru. Þar erum við meðal annars að tala um blásýru,“ segir Elínrós í greininni. „Niðurdælingin á að eiga sér stað í aðeins nokkur hundruð metra fjarlægð frá heimilum fólks og vatnsverndarsvæðum. Einnig eru Kaldárbotnar, neysluvatnsból Hafnfirðinga, í aðeins um 4,5 km í loftlínu frá væntanlegri niðurdælingu.“
Bendir Elínrós á að bannað sé að skerða magn og gæði grunnvatnshlota. Coda Terminal myndi nota meira magn af grunnvatni en allt höfuðborgarsvæðið á hverjum sólarhring. Það gefi auga leið að slíkt hljóti að skerða magn hlotsins og 5700 tonn af snefilefnum frá stóriðju í Evrópu í 30 ár muni skerða gæði þess. Margir Hafnfirðingar geti ekki sætt sig við þessa óvissu.
„Carbfix reynir enn og aftur að gaslýsa almenning með skrifum sínum,“ segir Elínrós og nefnir að samanburðurinn við Hellisheiði sé rangur. Þar sé verið að dæla niður koldíoxíði sem eigi uppruna í jarðvarmavirkjun, ekki alls konar iðnaði í Evrópu þar sem skaðleg aukaefni verða til. Þá sé magnið sem áætlað sé að dæla niður við Vellina þúsund sinnum meira en á Hellisheiði, það er þrjár milljónir tonna á móti þrjú þúsund.
„Leyfum náttúrunni og íbúum að njóta vafans. Tökum hagsmuni almennings og náttúrunnar fram yfir hagsmuni Orkuveitu Reykjavíkur og erlendra fjárfesta í Coda Terminal,“ segir hún að lokum. „Það búa um 15000 manns í nálægð við væntanlega niðurdælingu útblástur frá erlendri stóriðju.“