Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur sent frá sér úrskurð sinn í máli manns sem var afar ósáttur við viðskipti sín við ónefndan fasteignasala. Sakaði maðurinn fasteignasalann um margvísleg brot og að hafa með þeim valdið sér fjárhagstjóni. Krafðist maðurinn endurgreiðslu og skaðabóta, alls 7,6 milljónir króna. Maðurinn beindi einnig ásökunum sínum að aðstoðarmanni fasteignasalans en kaus að beina kröfum sínum, fyrir nefndinni, alfarið að honum. Af þessum sökum hafnaði nefndin kröfum mannsins.
Maðurinn fór fram á endurgreiðslu á gjöldum sem hann greiddi í tengslum við kaup á lóðum, auk skaðabóta.
Maðurinn keypti lóðir á ónefndri landareign fyrir milligöngu fasteignasalans en segir í kvörtun sinni til nefndarinnar að hann hafi ekki getað byggt á landareigninni vegna fasteignasalans og aðstoðarmanns hans. Sagði maðurinn þessa aðila auk seljanda lóðanna hafa nýtt sér þekkingarleysi hans og með markvissum hætti haldið frá honum fullbúnu afriti kaupsamnings sem fasteignasalinn hafi skrifað undir fyrir hönd mannsins án þess að honum gæfist tækifæri til að skoða samninginn áður. Maðurinn sagðist ekki hafa verið upplýstur um ákvæði í kaupsamningi um vatnsból sem ekki hafi verið að finna í söluyfirliti.
Maðurinn sagði enn fremur að aðstoðarmaður fasteignasalans hefði vanrækt að veita honum afrit af deiliskipulagi þar sem kom fram að óheimilt sé að selja land undir húsnæði nema að neysluvatn og brunavarnir hafi verið tryggðar. Þá hafi aðstoðarmaðurinn krafið manninn um of há stimpil- og miðlunargjöld. Loks hafi aðstoðarmaðurinn vanrækt að skrá allar lóðirnar á eignarbréf sóknaraðila og úthlutað röngum „F númerum“ í stað „L númera“.
Maðurinn krafðist þess að aðstoðarmanninum yrði gert að endurgreiða helming stimpilgjalda auk skrifstofu- og fasteignagjalda. Þar auki krafðist maðurinn bótagreiðslu frá aðstoðarmanni fasteignasalans. Heildarkrafa mannsins nam um 7,6 milljónum króna.
Aðstoðarmaðurinn hafnaði kröfum mannsins alfarið og sagði meðal annars í andsvörum sínum að maðurinn hafi sannarlega verið upplýstur um að kaupandi bæri ábyrgð á að finna og útvega vatn.
Í niðurstöðu Kærunefndar vöru- og þjónustukaupa kemur fram að aðstoðarmaður fasteignasalans hafi verið í samskiptum við manninn vegna sölunnar og sinnt tilteknum verkefnum sem tengdust henni en samkvæmt gögnum málsins hafi fasteignasalinn annast söluna.
Segir nefndin að sakvæmt lögum um sölu fasteigna beri fasteignasali ábyrgð á tjóni sem þeir valda sem starfi í hans þágu við fasteignasölu. Í lögunum segi einnig að fasteignasala beri sjálfum að sinna þeim verkefnum sem löggilding hans nái til. Honum sé þó heimilt að fela einstaklingum sem starfa hjá honum eða félagi hans um fasteignasölu einstök afmörkuð verkefni við sölu einstakra eigna. Samkvæmt lögunum beri fasteignasali ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmenn hans valdi í störfum sínum, af ásetningi eða gáleysi.
Vísar nefndin einnig til ákvæða skaðabótalaga sem kveði á um að hafi starfsmaður valdið tjóni sem munatrygging, rekstrarstöðvunartrygging eða ábyrgðartrygging vinnuveitanda hans taki til sé starfsmaðurinn ekki skaðabótaskyldur nema tjónið verði rakið til ásetnings eða stórfellds gáleysis.
Nefndin segir það því vera skýrt að fasteignasalinn í þessu máli hafi borið ábyrgð á því tjóni sem hann og starfsmenn hans kunni að hafa valdið í störfum sínum. Þar sem maðurinn beini kvörtun sinni að aðstoðarmanni fasteignasalans en ekki fasteignasalanum sjálfum sé kröfum mannsins á hendur aðstoðarmanninum hafnað en nefndin bætir við að aðstoðarmaðurinn hafi ekki sýnt af sér stórfellt gáleysi eða ásetning.