Valgerður Gunnarsdóttir, skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík, gefur kost á sér í 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi. Hún greinir frá þessari ákvörðun sinni á Facebook.
Valgerður sat á þingi árin 2013-2017 og hafði áður verið virkur þátttakandi í sveitarstjórnarmálum, meðal annars sem forseti bæjarstjórnar Húsavíkur.
„Ágætu vinir og félagar
Að vel ígrunduðu máli hef ég ákveðið að stíga inn í stjórnmálin á ný.
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum.
Ég óska einlæglega eftir stuðningi ykkar, kæru vinir, til þess.“
Valgerður segist tilbúin að leggja sitt af mörkum til að efla og berjast fyrir bættum innviðum í kjördæmi sínu, atvinnulífi, menntamöguleikum og ekki síst lífsgæðum eldra fólks.
„Verkefnin sem fram undan eru, eru að ná tökum á verðbólgunni og því háa vaxtastigi sem við höfum mátt að lifa við síðustu misseri. Sækja þarf fram í uppbyggingu innviða, samgöngu-, raforku- og fjarskiptakerfum og tryggja þannig undirstöðu fyrir aukna verðmætasköpun.“
Valgerður segir að tveggja áratuga reynsla hennar sem skólameistari og þátttakandi í stjórnmálum hafi hún skýra sýn á hvernig hægt sé að styrkja menntakerfið, þá einkum iðn- og verknám. Ein hvernig hægt sé að skapa fleiri tækifæri fyrir ungt fólk í heimabyggð.
„Norðausturkjördæmi þarf öfluga fulltrúa sem þekkja svæðið vel og eru tilbúnir í þau verk sem þarf að vinna og hugsa í framtíðarlausnum,“ segir Valgerður Gunnarsdóttir.