fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Pútín herðir tökin á hernum – Kemur ættingjum sínum fyrir við kjötkatlana

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 16. október 2024 05:07

Pútín er væntanlega brjálaður yfir þessu. Mynd:EPA/Sputnik

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þar til í apríl á þessu ári var Timur Ivanov aðstoðarvarnarmálaráðherra í Rússlandi. Hann bar meðal annars ábyrgð á umsýslu með eignir ráðuneytisins og byggingarverkefnum. Hann var fenginn til starfa í ráðuneytinu 2016 af Sergei Shoigu, þáverandi varnarmálaráðherra, en þeir höfðu unnið saman áður.

Hvort hann var góður í starfi sínu og gagnaðist ráðuneytinu og hernum vel er erfitt að segja til um en enginn vafi leikur á að hann gæti sinna eiginn hagsmuna vel og af miklum krafti.

Rannsókn samtaka stjórnarandstæðingsins Aleksei Navalny, sem lést fyrr á árinu í rússneskum fangabúðum, frá 2020 sýndi að lífsstíll Ivanov líktist frekar lífsstíl olígarka en opinbers starfsmanns. Hann átti fasteignir sem voru samtals 12.000 fermetrar, margar þeirra voru í dýrustu hverfum Moskvu. Hann leigði einbýlishús í Saint Tropez, átti 12 bíla, þar á meðal Rolls Royce, hélt upp á afmælið sitt í Istanbúl og kostaði það sem svarar til um 25 milljóna íslenskra króna og eiginkona fékk hring sem kostaði sem svaraði til 15 milljóna íslenskra króna.

Ekki slæmur lífsstíll hjá manni sem fékk sem svarar til um 20 milljóna íslenskra króna í árslaun.

Eins og svo oft er raunin í Rússlandi þá leiddu yfirvöld þessar afhjúpanir algjörlega hjá sér. Ivanov var í náðinni og gat því setið óáreittur við kjötkatlana.

Spilling er landlæg í Rússlandi og viðgengst á öllum sviðum opinberrar stjórnsýslu, þar á meðal hjá hernum.

En í apríl kom að leiðarlokum hjá Ivanonv þegar hann var handtekinn og sakaður um spillingu. Hann hefur setið í fangelsi síðan.

Nýlega kom fram að hann hafi verið ákærður fyrir að hafa dregið sér sem svarar til um 5 milljarða íslenskra króna af opinberu fé. Þessu utan er hann sakaður um að hafa þegið sem svarar til um 2 milljarða króna í mútur. Hann á allt að 15 ára fangelsi yfir höfði sér.

Skömmu eftir handtöku Ivanov var röðin komin að vini hans og yfirmanni, Sergei Shoigu, sem hafði gegnt embætti varnarmálaráðherra síðan 2012. Hann hefur verið mikilvægur maður í rússneska valdakerfinu í þrjá áratugi og því fékk hann öllu vægari meðferð. Honum var ýtt úr embættinu og settur sem ritari öryggisráðs Pútíns en það leikur nokkuð stórt hlutverk í Kreml.

Eftir brotthvarf hans úr ráðherraembættinu hafa tíu áhrifamenn í hernum verið sakaðir um spillingu. Jótlandspósturinn segir þetta vera mestu hreinsunina í rússneska hernum síðan á tímum Stalíns.

En ólíkt því sem var á tímum Stalíns þá geta yfirvöld nú byggt aðgerðir sínar á raunverulegum misgjörðum viðkomandi ekki bara ofsóknaræði og upplognum sökum.

Útgjöld til rússneska hersins eru nú meiri en nokkru sinni áður og munu aukast enn frekar á næsta ári eða um 25%. Þau verða þá orðin tvöfalt meiri en 2023.

Þegar um svona háar fjárhæðir er að ræða er auðvitað mikilvægt að gott eftirlit sé haft með hvernig peningarnir eru notaðir en á síðustu árum hefur verið slakað mjög á þessu eftirliti. Til dæmis þurfa ekki allir embættismenn lengur að skýra frá tekjum sínum og eignum. Allt er þetta auðvitað gert til að auðvelda embættismönnum að maka krókinn.

Hér koma ættingjar og vinir Pútíns til sögunnar því hann hefur verið iðinn við að koma þeim fyrir í góðum stöðum þar sem þeir geta nánast óhindrað stolið opinberu fé. Dæmi um þetta er frænka hans Anna Tsivilova, áður Anna Putina, sem er systurdóttir hans.  Frami hennar innan varnarmálaráðuneytisins hefur verið hraður. Hún var gerð að aðstoðarráðherra í sumar og er nú orðin ríkisritari sem færir henni meiri völd en hinir aðstoðarráðherrarnir hafa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt