Um korter fyrir átta í morgun var brotist inn í reiðhjólaverslunina Tri við Suðurlandsbraut og stolið þaðan einu reiðhjóli, dýrasta hjólinu í versluninni.
Framkvæmdastjóri Tri, Róbert Grétar Pétursson, segir að þjófurinn hafi aðeins verið í nokkrar sekúndur í verslunninni og virðist aðgerðin hafa verið mjög markviss.
„Hann náði að spenna upp hurð sem er í framglugganum hjá okkur. Hurð sem er búin að vera læst síðan fluttum hingað inn og hefur aldrei verið notuð. Ég hélt að það væri ekki hægt að spenna hana upp en honum tókst það,“ segir Róbert.
Róbert segir að þjófurinn hafi augljóslega verið búinn að ákveða fyrirfram hvað hann ætti að nema á brott úr versluninni. „Hann tók bara eitt hjól, fór bara í dýrasta hjólið í búðinni. Hann vissi alveg hvað hann átti að taka, ég held að þetta sé bara einhver pöntun. Ég held að þetta sé bara einhver gaur sem var sendur, að minnsta kosti talaði lögreglan þannig.“
Róbert segir að aðeins sjáist á hurðinni en aðrar skemmdir hafi ekki verið unnar í innbrotinu. „Svo tók hann bara framhurðina úr lás og gekk út eins og kúnni, nýbúinn að kaupa sér hjól. Hann var í 15-20 sekúndur í búðinni en hann var búinn að vera fyrir utan húsið að sniglast eitthvað og reyna að komast inn um aðrar dyr.“
Innbrotið sést greinilega í gögnum öryggismyndavéla sem núna eru til skoðunar hjá lögreglunni.
Tri hefur auglýst eftir stolna hjólinu á Facebook-síðu sinni. Meðfylgjandi er mynd af samskonarhjóli. Ábendingar eru vel þegnar á heimasíðu verslunarinnar. Sjá nánar með því að smella á tengilinn hér að neðan.