Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu nema Seltjarnarnes hafa tilkynnt um að öllum sundlaugum sveitarfélaganna hafi verið lokað vegna bilunar í Nesjavallavirkjun.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að vegna bilunar í Nesjavallavirkjun Orku Náttúrunnar sé nú skert flæði á heitu vatni til höfuðborgarsvæðisins. Vegna þessa hafi Reykjavíkurborg lokað öllum sínum átta sundlaugum og óljóst sé hvenær hægt verður að opna þær aftur.
Hluti þeirra véla sem sjái um framleiðsluna í Nesjavallavirkjun séu komnar aftur af stað en virkjunin sé ekki á fullum afköstum. Vegna þessa biðji Veitur sem dreifa vatninu til íbúa á höfuðborgarsvæðinu, fólk um að fara sparlega með heita vatnið á meðan á viðgerð stendur.
Í tilkynningunni segir að Veitur hafi haft samband við sína stærstu viðskiptavini með ósk um að heitavatnsnotkun yrði lágmörkuð eins mikið og hægt er til setja heimili og viðkvæma starfsemi í forgang. Reykjavíkurborg hafi orðið við þeirri beiðni og hafi sundlaugum því verið lokað og gervigrasvellir stilltir á lægstu stillingu.
Sveitarfélögin Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur og Mosfellsbær hafa öll tilkynnt á sínum Facebook-síðum að öllum sundlaugum sveitarfélaganna hafi verið lokað vegna bilunarinnar. Enga slíka tilkynningu er hins vegar að finna á Facebook-síðu Seltjarnarnesbæjar, þegar þessi orð eru rituð.