Í auglýsingum fyrirtækjanna er tekið fram að leitað sé að starfsfólki til að grafa skotgrafir, reisa varnarmannvirki, loftvarnarbyrgi og skriðdrekavarnir. Engrar reynslu er krafist og mánaðarlaunin eru 210.000 rúblur en það svarar til um 320.000 íslenskra króna. Vinnuveitandinn sér starfsfólki fyrir einkennisfatnaði, fæði og húsnæði.
Áður en nýja starfsfólkið (ef einhverjir fást til starfa) verður sent til Kúrsk verður það sent á tveggja vikna námskeið til að undirbúa það undir starfið á átakasvæði.
Einnig er leitað að smiðum og fólki í steypu- og lagnavinnu.
Ekki er vitað hversu marga þarf til að grafa skotgrafir og reisa varnarmannvirki en fyrirtækin staðhæfa að störfin séu ekki hættuleg.
En Rússar bíða ekki bara eftir nýja starfsfólkinu því nú þegar er byrjað að grafa skotgrafir ef miða má við gervihnattarmyndir af svæði sem er um 45 km frá úkraínsku landamærunum. BBC segir að byrjað sé að grafa skotgrafir á að minnsta kosti fimm stöðum.