Margir segjast vera með áætlun um hvernig sé hægt að binda enda á stríðið en rússneskir ráðamenn eru ekki hrifnir af því sem nefnt hefur verið.
Donald Trump og félagar hans segjast vera með áætlun um hvernig sé hægt að binda enda á stríðið á skömmum tíma. Þeir hafa ekki skýrt frá hvað felst í áætlun þeirra en líklegt má telja að þeir vilji bjóða Pútín landsvæði í Úkraínu og að Úkraína verði óháð, fái ekki aðild að NATÓ. En Trump og félagar láta sig engu skipta hvað Úkraínumönnum finnst um þetta.
Viktor Orbán, forseti Ungverjalands, hefur verið á ferð og flugi síðustu vikur með svipaða tillögu á lofti en ekki er vitað í smáatriðum hvað felst í henni.
Í nýlegu opnu bréfi hvöttu rúmlega 50 nóbelsverðlaunahafar til vopnahlés nú þegar og að friðarviðræður verði hafnar á milli Rússa og Úkraínumanna.
Þegar skoðað er hvað er rætt í Rússlandi, þá er rætt um frið byggðan á uppgjöf Úkraínumanna, það er að segja ef gera á rússneska ráðamenn ánægða. Það sem Rússar vilja helst af öllu er að Úkraína hætti að vera til sem sjálfstætt ríki.
„Ef maður á að ræða um frið í Úkraínu, sem íbúar Rússlands vilja, þá er það eina rétta að öll Úkraína verði undir stjórn rússneska hersins,“ sagði Sergei Tsekov, meðlimur utanríkismálanefndar rússneska þingsins.
Í samtali við gazeta.ru sagði hann að þetta snúist sérstaklega um úkraínskt landsvæði austan við ána Dnipro. Það landsvæði eigi allt að falla Rússum í skaut, þar á meðal Odesa, Mykolaiv og Kyiv. Það sé besta lausnin.
Frá 2014 hafa Rússar lagt fimmtung Úkraínu undir sig með vopnavaldi og ekkert bendir til að þeir hafi í hyggju að láta neitt af þessu landi af hendi.