

Umboðsmaður Alþingis hefur sett ofan í við Orkustofnun fyrir seinagang í að afgreiða og svara til um erindi sem varðaði fyrirkomulag hleðslubúnaðar í fjölbýlishúsum.
Kvörtum barst umboðsmanni frá ónefndu félagi sem hafði kvartað til Orkustofnunar í desember árið 2021. Orkustofnun svaraði kvörtuninni ekki og því leitaði félagið ítrekað um umboðsmanns til að reyna að koma málinu á hreyfingu. Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum um hvað væri að tefja meðferð og afgreiðslu og sendi bréf til Orkustofnunar í júní og september á síðasta ári.
Í svari Orkustofnunar í júní kom fram að stofnunin hefði óskað eftir fundi með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og eftir þann fund yrði upplýst um næstu skref og hvenær niðurstöðu væri að vænta. Í september sagði Orkustofnun að málinu væri tekið alvarlega og afgreiðsla þess sett í „hæsta forgang“.
Umboðsmaður ritaði eftur bréf í desember 2023. Þá sagði Orkustofnun að svar kæmi að viku liðinni. Við lok janúar var svo tilkynnt um tafir en í febrúar hafði félagið ekki enn fengið afgreiðslu kvörtunar sinnar og hafði ekki hugynd um stöðuna.
Þá sendi umboðsmaður enn eitt bréfið í febrúar og vildi þá vita hvort að Orkustofnun hefði tilkynnt félaginu um tafir, ástæður fyrir töfum og hvenær ákvörðunar væri að vænta.
Svar barst loks í mars og þá tilkynnt að ákvörðun hefði verið birt þann daginn. Tekið var fram að málið hefði verið tímafrekt enda tæknilega flókið og að gæta þyrfti að mörgum álitaefnum. Veikindi starfsmanns hafi svo líka valdið töfum.
Umboðsmaður skrifaði bréf til Orkumálastofnunar í maí þar sem hann sagði málið hafa gefið honum tilefni til að koma ábendingum á framfæri. Afgreiðsla málsins hafi tekið 26 mánuði og umrætt félag, sem kvartaði til Orkustofnunar, í þrígang leitað til umboðsmanns út af hægaganginum.
Orkustofnun hafi réttlætt töfina með ýmsum hætti, svo sem með vísan til veikinda starfsmanns, starfsmannabreytinga, eldsumbrota, vinnuálags og forgangsröðun verkefna.
Umboðsmaður tók fram að í einni skýringunni hafi verið vísað til væntanlegs fund með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Sá fundur hafi þó aldrei farið fram. Eins hafi í öðru svari verið vísað til þess að til stæði að funda með Samkeppniseftirlitinu, en óljóst sé hvort slíkur fundur hafi átt sér stað.
Umboðsmaður taldi ljóst að málshraðaregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin og beindi hann því til Orkustofnunar að huga betur að þessu í framtíðinni. Honum sé kunnugt um að fleiri hafi gert athugasemdir við málshraða stofnunarinnar í öðrum málum. Því óskar umboðsmaður svara um hvernig Orkustofnun ætlar að bregðast við stöðunni og minnir hann á heimild sem hann hefur að lögum til að hefja almenna athugun á starfsemi og málsmeðferð stofnunarinnar.