„Einn daginn mætir dóttir mín í skólann og settist í sæti sem annar „átti“ að mati annarra (það átti hins vegar engin nein sæti). Sá einstaklingur sem „átti“ sætið kemur inn og verður bandbrjálaður og öskrar á dóttir mína og hendir öllu skóladótinu hennar út um öll gólf, í því labbar kennari inn og spyr hver á dótið. Dóttir mín réttir upp hönd og lætur kennarinn hana fara á fjórar fætur til þess að týna upp eftir sig af gólfinu. Þetta varð auðvitað mikil skemmtun fyrir alla aðila en hins vegar fullkomin niðurlæging fyrir dóttir mína,“ segir Ragnheiður Harpa Sveinsdóttir í grein á Vísir.is þar sem hún gerir upp einelti sem dóttir hennar varð fyrir í grunnskóla, yfir níu ára tímabil.
Ragnheiður lýsir því hvernig sú tilhneiging skólayfirvalda og foreldra annarra barna í bekk dótturinnar að breiða yfir einelti, skilgreina það sem samskiptavanda og í raun kenna dóttur hennar um það, hafi viðhaldið vandamálinu:
„Annað vandamál sem við rákumst á í samskiptum við skólann var að það var alltaf hann sagði, hún sagði. Aldrei var hægt að taka afstöðu með dóttir minni þar sem það kom alltaf andsvar frá bekkjarsystkinum. Í bekknum var það viðurkennd hegðun að koma illa fram við hana og tóku því allir þátt í því ásamt því að hunsa hana. Því virtist það í lagi að kenna henni um allt sem miður fór þar sem hún hegðaði sér ekki eins og þau samþykktu.“
Í þessu samhengi bendir Ragnheiður á að ef barn kvartar ítrekað undan vanlíðan eða stríðni sé það skýr merki um að vandi sé á feðinni. Ef stjórnendur skólans meta vandann sem samskiptavanda sé mikilvægt að grípa inn í því annars verði samskiptavandinn fljótlega að einelti.
Ragnheiður segir að mikilvægast sé að vandinn sé viðurkenndur en ekki hylmt yfir hann og honum sópað undir teppið.
Ragnheiður segir að mikilvægur þáttur í að uppræta einelti sé að foreldrar gerenda viðurkenni vandann og horfist í augu við hann. Mjög skorti á þetta á langri þrautagöngu mæðgnanna. Tilhneiging foreldra til að afsaka hegðun barna sinna er mjög sterk:
„Samfélagið leikur mikilvægan þátt í að uppræta einelti, börn koma heim með eina sögu og verja foreldrar barnið sitt, sem eru eðlileg viðbrögð. Hins vegar þarf að hlusta og heyra það sem aðrir foreldrar hafa að segja án þess að fara í vörn. Ég held að eitt af því erfiðasta sem við foreldrarnir fóru í gegnum í þessu ferli var að eiga samskipti við aðra foreldra. Foreldrar verja börnin sín og aldrei kom neinn að biðja afsökunar á einu eða neinu þó svo að það væri vitað mál að atburðurinn hafi átt sér stað. Það er á okkar ábyrgð að kenna börnunum okkar að koma vel fram við aðra og hvernig hægt sé að takast á við mistökin sem eru gerð, því enginn er fullkominn. Foreldrar þurfa að vera tilbúnir að taka sig saman og vinna með þeim sem ganga í gegnum þá erfiðleika sem fylgja síenduteknum samskiptavanda og svo einelti.“
Í greininni fjallar Ragnheiður vítt og breitt um hvernig takast skuli á við einelti en þar skiptir líklega mestu máli að samfélagið horfist í augu við vandann og hlusti á börn sem kvarta undan vanlíðan og stríðni. Hún fjallar einnig um ævilangar afleiðingar af einelti. Greinina í heild má lesa hér.