Um klukkan 18:30 í kvöld barst tilkynning um að karlmaður um tvítugt hefði fallið ofan í Fnjóská nokkru ofan við ósa hennar, skammt frá Pálsgerði.
Maðurinn var með þremur félögum sínum og hvarf þeim sjónum í ánni. Björgunarsveitir voru kallaðar út ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar. Aðgerðarstjórn var í kjölfarið virkjuð á Akureyri.
Maðurinn er enn ófundinn samkvæmt tilkynningu lögreglunnar á Norðurlandi eystra en um 130 viðbragðsaðilar eru að störfum við leitina. Vettvangsstjórn hefur verið skipuð á vettvangi. Fimm leitardrónar eru notaðir og sérþjálfaðir straumvatnsbjörgunarsveitarmenn eru komnir á svæðið. Von er á leitarhundum til viðbótar. Aðstæður eru erfiðar því Fnjóská er nokkuð lituð á þessum slóðum og kvíslast svo mikið í ósum að leitarsvæðið er víðfeðmt og sums staðar vatnið það grunn að erfitt er að koma við tækjum við leitina.
Lögregla mun upplýsa aftur um stöðu mála í kringum miðnætti.