fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Hraun komið að varnargörðum vestan við Grindavík í stærsta gosinu til þessa – Sprunga við rætur Hagafells og sprengingar í fjallinu

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 29. maí 2024 14:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Uppfært: 16:20 – Almannavarnir greina frá því að Norðurljósavegur sé einnig farinn undir hraun. Aðeins séu 50 metrar í að hraun fari yfir Grindavíkurveg norðan við Svartsengi og miklar líkur á að Nesvegur lokist fljótlega vegna hraunflæðis. Hraun rennur einnig til suðurs í átt að Suðurstrandavegi. Vegagerðin fylgist grannt með stöðu mála og beðið er átekta. Allir vegir til og frá Grindavík eru lokaðir fyrir almenna umferð eins og stendur.

HS Veitur greina frá því að hraun flæði nú í átt að Njarðvíkuræðinni, en þó sé engin ástæða til að spara heitt vatn. Frekar að  halda uppi góðum þrýstingi og því eru íbúar beðnir um að spara ekki heita vatnið. Lögnin er nú grafin í jörðu og með því að halda uppi þrýsting er vonað að þá takist frekar að kæla lögnina ef á reyni. Þannig sé hægt að auka líkur á að hún haldi ef hraun flæðir yfir.

Uppfært: 16:10 – Sprunga hefur myndast við rætur Hagafells að sunnanverðu og má sjá sprunguna stækka til suðurs á vefmyndavél mbl.is. Sprengjur hafa verið í fjallinu að sögn Vísis. Hraun hefur nú runnið yfir Grindavíkurveg og Nesvegurinn eins við það að lokast. Bæjarstjóri Grindavíkur, Fannar Jónsson, segist  í samtali við RÚV hafa áhyggjur af því að varnargarðarnir gefi sig ef gosið heldur áfram með þessum hætti.

Almannavarnir greina frá því að hraunflæði hefur komist í grunnvatn sem sundrar kvikunni og verður að ösku sem berst upp með heita gosmökkinum. Þetta hafi líka sést í fyrri gosum af mismunandi skala. Á vefmyndavélinni hér að neðan má sjá gosmökkinn sem er dökkur að lit.

Uppfært: 15:45- Hraun rennur yfir Grindavíkurveg og Veðurstofa hefur uppfært hættumat. Jarðskjálftavirkni hefur minnkað hratt og stöðugt sig sést á GPS stöð við Svartsengi. Hæstu strókar eru 60-70 metrar og hraun er komið að varnargörðum vestan við Grindavík.

„Þetta er mun meira hraunflæði en við höfum séð áður,“ sagði Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur, í viðtali á Rás 2.

Uppfært: 15:06 – Hraun hefur náð Grindavíkurvegi samkvæmt tilkynningu almannavarna klukkan  14:44. Gossprungan er orðin 3,4 kílómetrar að lengd.

Um klukkan tvö tilkynnti Veðurstofa Íslands að hraunið hefði runnið um 1 km til vesturs og er mikið flæði sunnan Stóra-Skógfells í átt að Grindavíkurvegi. Þegar klukkan var rúmlega tvö var gosmökkurinn um 3,4 kílómetrar og hafði önnur sprunga opnast vestan við fyrstu sprunguna.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir í samtali við RÚV að gosið sé greinilega stærst gosanna í þessari hrinu. Eftir rúman klukkutíma gæti umfangs hrainsins verið orðið um 5-5,5 ferkílómetrar. Hann væntir þess þó að draga muni úr gosinu fljótlega. Nú þegar sé kominn upp meira en helmingur þeirrar kviku sem hafði safnast á svæðinu.

Rafmagn fór af Grindavík rétt fyrir klukkan þrjú en þá var háspennulína tekin út því hún var í hættu að mati HS Orku. Um varúðarráðstöfun er að ræða en hefði hraun runnið yfir línuna á meðan hún var tengd hefði það geta valdið skemmdum í orkuverinu. Ekki er ljóst hvenær rafmagn kemur aftur á.

Á vefmyndavél Vísis má sjá hraunrennslið stefna að varnargörðunum við Grindavík. Eins er hraun farið að flæða með varnargarðinum norður af Svartsengi.

Mynd/Veðurstofa Íslands

 

Almannavarnir segja að ekki séu merki um að kvika sé að færa lengra til suðurs en Eldfjalla- og náttúruváhópur Suðurlands skrifar á Facebook að gossprungan sé nú komin að Hagafelli norðan Grindavíkur og jörðin sé því sífellt að rifna lengur til suðurs. Óljóst sé með stöðuna norðan megin þar sem svæðið sést ekki á vefmyndavélum. Nýjasta gossprungan sé 2 km frá byggð í Grindavík.

Gasmengun berst til suðausturs og síðar austurs í dag og gæti orðið vart við hana í Selvogi og Ölfusi. Vindátt snýst til suðvesturs í kvöld og því berst gasmengun til norðausturs og gæti orðið vart á höfuðborgarsvæðinu í nótt og á morgun.

 

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir gosstöðvarnar og hefur birt myndband frá fluginu þar sem má sjá lengd gossprungunnar.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“