Mikið hefur verið rætt og ritað um þá ákvörðun forsvarsmanna Hagkaupa að hefja netsölu á áfengi. Ef fer sem horfir munu viðskiptavinir verslunarinnar geta pantað áfengi og sótt í Skeifuna og mun Hagkaup þar með bætast í hóp þeirra fjölmörgu verslana sem selja áfengi í netsölu hér á landi.
Sitt sýnist hverjum um þetta og á meðan sumir fagna betra aðgengi eru margir því mótfallnir. Emma Holm, fyrrverandi aðstandandi alkóhólista, skrifar aðsenda grein í Morgunblaðið í dag þar sem hún beinir orðum sínum að Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra.
„Loksins þegar við höfum skynsaman heilbrigðisráðherra, ætlar þú sem dómsmálaráðherra að beita þér fyrir auknu aðgengi að áfengi? Ég veit að flokkurinn þinn stendur með Hagkaup og netverslunum í að hleypa áfenginu lausu frá ríkinu, en ég bind miklar vonir við að þú, sem kona og ráðherra dómsmála, beitir þér fyrir því að stöðva lögleysuna sem á sér stað fyrir allra augum. Áfengi selt á netinu og börn ginnt fyrir framan nefið á okkur. Hvar er kvenlegt innsæi þitt?“
Emma hefur áhyggjur af því að alkóhólistar, sem hafa eytt vikum í meðferðum og reyna sitt allra besta til að halda sjúkdómnum í skefjum, muni falla fyrir auknu aðgengi í fljótfærni. Hefur hún enga samúð með þeim sem geta leyft sér þann munað að drekka áfengi án vandræða. Þeir geti ósköp vel skipulagt sig þannig að kaupa á afgreiðslutíma og geyma þar til tappinn er dreginn úr. „En það geta sjúkir ekki. Þeir geta ekki beðið með að opna flöskuna.“
Emma er þeirrar skoðunar að útibú ÁTVR – bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni – séu nógu mörg og meira að segja með opið meira en gott þykir. Ætti jafnvel að stytta afgreiðslutímann og fækka búðunum, að hennar mati.
„Heilbrigt fólk getur átt flösku í skáp þar til tækifæri gefst til að gera sér glaðan dag. En þeir sem eru veikir fyrir víni (og þeir eru mjög margir) ættu auðveldara með að sniðganga vín ef það væri ekki úti um allt. Þeir gætu e.t.v. sparað þjóðfélaginu nokkrar meðferðir. Eins ef þeir fá stuðning eftir meðferð. Ef dómsmálaráðherra ætlar að fela sig á bak við EES þá þurfum við bara undanþágu eða einfaldlega að fara úr því. Það nær engri átt að þeir ákveði hvernig Ísland fer með sína þegna. Það er fáránlegt að utanaðkomandi áhrif skuli ákvarða örlög íslensku þjóðarinnar.“
Netverslun með áfengi: Hagkaup opnar áfengisverslun í Skeifunni