Bráðfyndið atvik náðist á myndbandsupptöku í matvöruverslun í Bretlandi fyrir skemmstu. Sést þegar kona þykist hníga niður í gólf en hún reyndi að fá bætur frá versluninni.
Í frétt staðarblaðsins The Yorkshire Post sést hvernig kona að nafni Theresa Birch lætur sig falla hægt til jarðar bak við búðargrind. Liggur hún svo flöt á eftir, ber sig aumlega og þykist hafa meitt sig í fótleggnum. Hefur slíkt varla sést síðan Rivaldo lét sig falla með tilþrifum á heimsmeistaramótinu árið 2002.
Atvikið átti sér stað í verslun Food Warehouse í bænum Paignton í Devon héraði þann 2. janúar árið 2023.
Birch lögsótti verslunina þann 21. febrúar í fyrra og sagði að fóturinn á henni hefði krækst í handfang sem hafi staðið út úr poka sem hefði verið skilinn eftir í reiðileysi. Gerði hún kröfu um 10 þúsund pund í bætur, en það jafngildir um 1,8 milljón íslenskra króna.
Forsvarsmenn verslunarinnar kröfðust sýknu í málinu og lögðu fram myndbandið af atvikinu sem náðist á CCTV öryggismyndavél. Sögðu þeir augljóst að Birch hefði sviðsett slysið til þess að reyna að svíkja út bætur. „Við og aðrar smásöluverslanir verðum því miður oft fyrir barðinu á upplognum eða ýktum bótakröfum sem erfitt er að verjast gegn,“ sagði Duncan Vaughan lögmaður. Í þessu tilfelli hafi hins vegar verið auðvelt að verjast.
Þegar myndbandið leit dagsins ljós snerist málið við og var Birch kærð fyrir tilraun til svika. Henni var hlíft við fangelsisdómi en mun þurfa að sinna eins mánaða samfélagsþjónustu. Þá var henni gert að greiða 17 þúsund pund í málskostnað, eða 3 milljónum króna.