Það var fyrirtækið Stasher sem stóð fyrir könnuninni og var meðal annars stuðst við gögn frá vefsíðum á borð við Hotels.com, Kayak.co.uk og Numbeo.com. Var miðað við kostnað við helgarferð fyrir tvo fullorðna; flug, gistingu og uppihald og er inni í því til dæmis verð á veitingastöðum.
Það er skemmst frá því að segja að Kraká í Póllandi er ódýrasta borgin og kostar helgarferð þangað 617 evrur, eða 93 þúsund krónur að lágmarki. Kraká hefur notið töluverðra vinsælda meðal Íslendinga á undanförnum árum og hefur hagstætt verð spilað þar stórt hlutverk.
Í 2. sæti á listanum er Búkarest, höfuðborg Rúmeníu, en helgarferð þangað kostar rúmar 98 þúsund krónur að jafnaði. Í þriðja sæti er svo önnur pólsk borg, Varsjá, en helgarferðin þangað kostar rétt tæpar 100 þúsund krónur. Í næstu sætum þar á eftir koma svo Riga, Prag, Búdapest, Istanbúl, Stokkhólmur, Porto og Valencia.
Dýrasta borg Evrópu, samkvæmt könnun Stasher, er Zurich í Sviss en helgarferð þangað kostar um 1.380 evrur, eða 208 þúsund krónur. Þar á eftir kemur Reykjavík en helgarferðin hingað kostar um 203 þúsund krónur. Köln í Þýskalandi er svo í þriðja sæti með kostnað upp á um 190 þúsund krónur. Þar á eftir koma Edinborg, Genf, Flórens, Feneyjar, Róm, Kaupmannahöfn og Mílanó.
Bent er á það í niðurstöðunum að miðað sé við meðalverð á flugi frá Bretlandi til umræddra áfangastaða. Fljúgi fólk frá öðrum löndum, Íslandi til dæmis, geti verðið því verið hærra en niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna.