Nú eru margir farnir að huga að hlaupadagskrá sumarsins og vert er að vekja athygli á utanvegahlaupi Póstsins. Þann 27. júlí verður Pósthlaupið ræst í þriðja sinn í Dölunum. Skráning er þegar hafin á hlaup.is.
Búðardalur mun iða af lífi þennan dag. Hlaupaleiðin er fjölbreytt og falleg og hægt verður að velja úr þremur vegalengdum, 7 km, 26 km eða 50 km. Í markinu í Búðardal verður boðið upp á heilnæma súpu og ís frá Erpsstöðum, hoppukastala og jafnvel skokk um bæinn fyrir yngstu kynslóðina. Björgunarsveitin Ósk og Ungmennafélagið Ólafur pá fá allan þátttökueyrinn óskiptan, eins og segir í fréttatilkynningu.
Undirbúningur er löngu hafinn en í gær hittust Dalamenn og hlaupagarpar á vegum Póstsins til að stilla saman strengi. „Við tökum glöð á móti þeim sem vilja njóta náttúrunnar með okkur og útiveru, enda Dalamenn þekktir fyrir gestrisni sína,“ segir Ingibjörg Jóhannsdóttir, einn af skipuleggjendum í Búðardal.
Í Pósthlaupinu er farin gömul póstleið frá Hrútafirði yfir í Búðardal. „Dalirnir eru mikið sögusvæði, oftar er kannski fornsögunum gert hærra undir höfði og því skemmtilegt að hafa þennan viðburð sem heiðrar sögu nær okkar tímum og störf sem við þekkjum,“ segir Ingibjörg.
Ungmennafélagið er eitt elsta starfandi félag í Dölunum en það varð 115 ára í febrúar. „Félagið sér um rekstur líkamsræktarstöðvar í Búðardal sem er vel nýtt. Í tilefni af afmælinu langar okkur að bæta við stuttri hlaupaleið fyrir yngsta hópinn, 1,5 km spotta í bænum. Svo nefndu félagsmenn við mig um daginn að það ætti að hvetja alla „eldri félaga“ í UMF Ólafi Pá að koma og hlaupa með okkur í sumar í tilefni afmælis félagsins.“
Hún segir að unnið hafi verið ötullega að því að festa Pósthlaupið í sessi hjá heimamönnum. „Segja má að þátttakendur hérna heima í héraði séu allt árið með hugann við skipulagninguna. Við veltum fyrir okkur hvað megi bjóða hlaupurum og gestum upp á og hvernig við getum fengið fleiri ungmenni og börn með okkur í lið, svo fátt eitt sé talið.
Það besta við Pósthlaupið er þessi afslappaða sumargleði. Fólk er komið til að njóta náttúru, útsýnis og útiveru og einhverjir hafa sett sér markmið um árangur í hlaupinu. Gleðin er allsráðandi, til dæmis var gaman í fyrra þegar bændur tóku upp á því að skreyta heyrúllur með hvatningarorðum til hlaupara. Skemmtidagskráin sem tók við þegar allir voru komnir í mark er líka eftirminnileg.“