Skýrsla rannsóknarnefndar um málið kom út í gær en í henni koma sláandi upplýsingar fram. Til dæmis var fólki gefið blóð sem sýkt var af HIV-veirunni og lifrarbólgu C. Talið er að af þessum sem fengu sýkt blóð séu þrjú þúsund látnir og glíma margir við alvarlega kvilla enn þann dag í dag.
Sky News segir frá máli Colin Smith sem var tíu mánaða þegar hann fékk blóð sem sýkt var af HIV-veirunni og lifrarbólgu C. Hann fékk alnæmi og lést árið 1990, aðeins sjö ára gamall.
Foreldrar hans, Colin og Janet, voru ómyrk í máli þegar þau ræddu við blaðamann í gær.
„Læknarnir sögðu að við værum að ofvernda son okkar en við þekktum hann, vissum að hann þjáðist. Hann var með alnæmi en því var haldið frá okkur,“ segir Janet.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að heilbrigðisstarfsfólk hafi verið vel meðvitað um hættuna á því að sýkt blóð myndi leynast í breskum blóðbönkum og lítið hafi verið gert til að koma í veg fyrir notkun þess.
Þannig hafi blóð úr ýmsum áhættuhópum, föngum og eiturlyfjanotendum til dæmis, ratað inn í breska blóðbanka allt til ársins 1986. Þá hafi heilbrigðisyfirvöld verið meðvituð um hættuna af HIV-smiti í gegnum blóðgjafir árið 1982, en ekki notfært sér tækni til að útrýma veirunni í blóði fyrr en árið 1985.
Bresk yfirvöld hafa sem fyrr segir heitið því að greiða bætur vegna málanna og er talið líklegt að upphæðirnar muni hlaupa á milljörðum punda.