Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, hefur efasemdir um framgöngu RÚV og telur að stofnunin þurfi að hafa hemil á sér varðandi það að víkka út starfsemi sína. Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Hún gerir til dæmis athugasemd við það að RÚV framleiði sína eigin hlaðvarpsþætti á kostnað skattgreiðenda og efast um að sú hlaðvarpsgerð sé í almannaþágu. Henni þykir einnig vafasamt að RÚV reki TikTok-rás. Rifjar hún upp orðaskipti sín og Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um þetta. Segir hún þær tvær hafa ólíka sýn á útvíkkun starfsemi RÚV:
„Á sömu nótum spurði ég ráðherrann út í rekstur ríkismiðilsins á TikTok-rás á dögunum, þar eð Morgunblaðið hafði fjallað um minnisblað frá fundi stjórnar RÚV um málið. Ég hafði áhuga á að heyra afstöðu hæstvirts ráðherra til TikTok-vafsturs RÚV og hvort hún teldi það vera hlutverk ríkisfjölmiðils. Ráðherrann vísaði aftur til þess að samfélagið þróaði þjónustu sína í takt við örar samfélagsbreytingar. Með TikTok væri hægt að ná til yngri kynslóða og því teldi ráðherrann „ekkert óeðlilegt“ við notkun RÚV á TikTok.
Við menningar- og viðskiptaráðherra höfum ólíka sýn á útvíkkun starfsemi RÚV, en ég vildi gjarnan sjá ríkismiðilinn halda aftur af sér. Ég hef fullan skilning á því að það hafi úr miklum fjármunum að moða. Spurningin er hvar Ríkisútvarpið dúkkar upp næst.“
Diljá telur að Lilja geri of lítið úr eftirlitshlutverki sínu gagnvart RÚV og telur svör hennar um Kveiksmálið sem kom upp fyrr í mánuðinum bera þess merki:
Ég spurði ráðherra sömuleiðis út í fréttaskýringu Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur fréttamanns. Eins og kunnugt er var hún látin fara úr fréttaskýringaþætti RÚV meðan hún vann að innslagi um meinta gjafagjörninga Reykjavíkurborgar til olíufélaga. Eftir nokkurt þref og mikinn þrýsting, sem skapaðist auðvitað við afhjúpun Maríu, var fréttaskýring hennar loks birt í öðrum þætti á RÚV. Umfjöllunin var sláandi og landsmenn eiga heimtingu á að fá að sjá hvernig staðið var að þessum samningum borgarinnar. Þar geri ég enga athugasemd við lögbundið hlutverk Ríkisútvarpsins. Ég óskaði eftir skoðun ráðherra á málinu og hvort hún teldi málið hafa skaðað trúverðugleika RÚV.
Menningar- og viðskiptaráðherra vísað til „ritstjórnarleg[s] sjálfstæði[s]“ RÚV og taldi ekki við hæfi að hún blandaði sér í umræðu um málið. Hún tók það fram að traust til Ríkisútvarpsins væri „býsna mikið“. Mér finnst ráðherra gera heldur lítið úr eftirlitshlutverki sínu.
Diljá telur að RÚV hafi sannarlega rækt hlutverk sitt með því að birta umfjöllun Maríu Sigrúnar í Kastljósi.