fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Yfirþjálfara fimleikadeildar Gróttu sagt upp störfum – Málið tengist þjálfunaraðferðum hjá umdeildum gestaþjálfara

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 12. maí 2024 17:45

Mynd: Grótta.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðalstjórn íþróttafélagsins Gróttu sagði yfirþjálfara áhaldafimleikadeildar félagsins upp störfum fyrr í vor. Samkvæmt heimildum DV tengist uppsögnin að hluta til ágreiningi innan félagsins um þjálfunaraðferðir í fimleikum en yfirþjálfarinn kaus að bjóða erlendum, umdeildum gestaþjálfara á æfingar hjá félaginu, sem deildin hafði rofið samstarf við.

Forsaga málsins tengist starfsaðferðum þessa erlenda gestaþjálfara, sem heimsótti fimleikadeildina reglulega frá árinu 2015 og tók að sér tímabundið þjálfun iðkenda og leiðsögn fyrir þjálfara innan deildarinnar. Hlé varð á heimsóknum þjálfarans í Covid-faraldrinum en haustið 2022 stóð til að hann kæmi aftur. Skömmu fyrir þá heimsókn þjálfarans barst stjórn fimleikadeildar Gróttu bréf frá nokkrum þjálfurum í deildinni sem höfðu æft undir stjórn gestaþjálfarans er þær voru yngri, þar sem komu þjálfarans var mótmælt sökum óviðunandi þjálfunaraðferða hans, að þeirra mati.

Þetta leiddi af sér fundarhöld með viðkomandi þjálfurum og að fundi loknum ákvað fimleikadeildin að afþakka heimsóknir frá erlenda þjálfaranum í bili. Ekki var einhugur um þessa ákvörðum og sumir þjálfarar studdu eindregið áframhaldandi samstarf við erlenda þjálfarann. Deildin leitaði til fagráðs Gróttu og óskaði eftir leiðsögn um hvernig taka ætti á þessum ágreiningi. Var þetta í febrúar árið 2023 en fagráðið skilaði áliti í júní sama ár, eða fyrir tæplega einu ári síðan.

DV hefur þetta álit fagráðs undir undir höndum. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að iðkendur hafi glímt við vanlíðan vegna þeirra þjálfunaraðferða sem beitt var í deildinni. Byggði fagráðið rannsókn sína á viðtölum við þjálfara deildarinnar og fyrrverandi iðkendur.

Rétt er að taka fram áður en lengra er haldið að samkvæmt heimildum DV er þjálfarinn er ekki sakaður um ólöglegt athæfi og hvorki líkamlegt né kynferðislegt ofbeldi. Hann er hins vegar gagnrýndur fyrir harkalegar þjálfunaraðferðir. Er hann sagður hafa beitt iðkendur refsingum, notað niðrandi orð um stúlkurnar og gert lítið úr þeim fyrir framan aðra iðkendur og þjálfara.

Í niðurstöðu fagráðsins segir meðal annars orðrétt:

„Af þeirri málsmeðferð sem lýst er fyrr í áliti þessu, m.a. viðtölum við tilkynnendur, telur fagráð hafið yfir vafa að innan fimleikadeildar hafi verið beitt þjálfunaraðferðum sem hafi skapað vanlíðan hjá iðkendum. Iðkendur hafi upplifað þjálfunaraðferðir sem refsingar, framkomu þjálfara sem niðurlægjandi, iðkendum hafi verið mismunað og þjálfunaraðferðir skapað ótta og kvíða iðkenda.

Fagráð telur ljóst að þjálfunaraðferðir sem viðhafðar voru innan fimleikadeildar og að framan er lýst hafi verið liður í mótun á tæknilega betri iðkendum íþróttarinnar. Fagráð telur þó einsýnt að umræddar aðferðir hafi skapað vanlíðan iðkenda, og í sumum tilvikum verulega vanlíðan sem haft hefur víðtæk og alvarleg áhrif á viðkomandi iðkendur. Fagráð telur að slíkar þjálfunaraðferðir verði ekki með góðu móti felldar undir framangreind sjónarmið barnalaga eða Siðareglna Gróttu. Við þær aðstæður telur fagráð að umræddar þjálfunaraðferðir skuli víkja og önnur sjónarmið höfð að leiðarljósi við val á þjálfunaraðferðum.“

Yfirþjálfarinn virti ákvörðunina að vettugi

Samkvæmt heimildum DV ákvað yfirþjálfari deildarinnar að virða þessa ákvörðun að vettugi og fá erlenda þjálfarann umdeilda til æfinga og leiðsagnar. Í kjölfarið sagði yfirstjórn félagsins honum upp störfum.

Meirihluti núverandi iðkenda í meistarahópi Gróttu í áhaldafimleikum mun hafa verið óánægðar með uppsögnina, sem og foreldrar þeirra. Aðalfundur Gróttu er framundan og einhverjir foreldranna hyggjast bjóða sig fram í stjórn fimleikadeildarinnar, meðal annars með það fyrir augum að endurráða brottrekna yfirþjálfarann, sem og að fá gestaþjálfarann aftur til starfa. Ennfremur er stefnt að því að koma manneskju úr hópi foreldranna í aðalstjórn félagsins.

DV ræddi stuttlega við Guðjón Rúnarsson, formann fimleikadeildar Gróttu. Hann segist ekki vilja tjá sig um viðkvæm starfsmannamál en staðfestir að uppsögnin hafi átt sér stað, ennfremur að aðalfundur félagsins verði næsta fimmtudag og þar verði kosið í allar stjórnir félagsins.

Grótta var stofnuð árið 1967 en í félaginu eru reknar þrjár deildir, knattspyrnu-, handknattleiks- og fimleika-. Fimleikastarfið hefur verið afar blómlegt undanfarin ár og í núverandi meistarahópi félagsins má finna landsliðskonur og fyrrverandi Íslandsmeistara.

Guðjón bendir á að ákvörðunin um uppsögn þjálfarans hafi verið í höndum yfirstjórnar en ekki fimleikadeildar, það sé einfaldlega í samræmi við það stjórnskipulag sem Grótta vinni eftir. Einn viðmælanda DV  telur hins vegar eðlilegt að fimleikadeildin sjái sjálf um sín þjálfaramál.

Ljóst er að tekist er á um þjálfunaraðferðir innan fimleikadeildarinnar, meðal þjálfara, iðkenda og foreldra. Árekstur hefur orðið á milli áherslu á afreksmennsku annars vegar og áherslu á vellíðan iðkenda hins vegar. Hér er því þó ekki haldið fram að þessar áherslur geti ekki farið saman.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ristaðar möndlur og jólasveinar í Bónus

Ristaðar möndlur og jólasveinar í Bónus
Fréttir
Í gær

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?

Æsispennandi kapphlaup um að verða „Trump-hvíslari“ – Hver er með forystuna?