Baráttumaðurinn Guðmundur Felix Grétarsson hefur dregið framboð sitt til embættis forseta Íslands tilbaka en hann náði ekki að safna tilskildum fjölda meðmælenda í tæka tíð. Frá þessu greinir frambjóðandinn á Facebook-síðu sinni.
„Það er víst kominn tími á að kasta inn handklæðinu. Þrátt fyrir góðan gang og jákvæð viðbrögð síðustu daga þá dugði það ekki til. Þetta hefur verið stórkostlegt ævintýri og ákaflega lærdómsríkt. Ég fór í þetta mál með dash af viðvaningshætti og tóma vasa, en klára reynslunni ríkari,“ skrifar Guðmundur Felix.
Hann segist hafa fengið allskonar viðbrögð við framboði sínu, flest góð en stundum hafi hann þurft að svara fyrir hversu margir séu í framboði.
„Ég hef endurnýjað kynni við marga gamla vini og eignast nýja. Ég vill þakka öllum sem mig studdu og vona okkur beri gæfa, nú sem endranær, til að finna okkur góðan/nn forseta.“