Húsfyllir var á netöryggisráðstefnu sem Syndis hélt á Grand Hótel síðastliðinn fimmtudag. Rúmlega 220 manns hlýddu á fyrirlestra íslenskra og sænskra sérfræðinga um netöryggi og stórauknar hættur af völdum hakkara. Meðal annars var kafað ofan í stöðuna á nýjustu aðferðum hakkara sem móta landslagið í vörnum og viðbragði fyrirtækja og stofnana.
Guðríður Steigrímsdóttir, öryggisstjóri Syndis, sagði meðal annars að með aukinni áhættu af netárásum sé mikilvægt að vera vel undirbúinn og fyrirtæki ættu að æfa viðbrögð við slíkum atvikum. Ný lög um öryggi mikilvægra innviða (NIS2) munu setja auknar kröfur á stjórnendur og á sama tíma búa til góðan ramma til að koma fyrirtækjum á öruggari stað. Úlfar Andri Jónasson, öryggisráðgjafi hjá Syndis, sagði meðal annars að rauntíma öryggisvöktun hefði getað komið í veg fyrir þónokkrar gagnagíslatökuárásir síðustu misserin.
Sænski netöryggissérfræðingurinn og hakkarinn David Jacoby flutti auk þess áhugavert erindi sem vakti mikla athygli gesta. Aðrir fyrirlesarar voru Anton Már Egilsson, forstjóri Syndis, Alexandre Thiroux, Jóhann Þór Kristþórsson, Theódór Gíslason, Stefanía Berndsen og Björn Orri Guðmundsson. Framtíðarspekúlantinn Bergur Ebbi Benediktsson stýrði ráðstefnunni eins og honum einum er lagið.