Ungur bjórsali hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás sem átti sér stað fyrir utan ónefnt hótel á höfuðborgarsvæðinu árið 2021. Þar sem brotamaður var ungur að árum þegar atvik máls áttu sér stað taldi dómari rétt að fresta ákvörðun refsingar skilorðsbundið til tveggja ára.
Atvikum er lýst svo í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 3. apríl, að umrætt kvöld hafi brotaþoli, sem var gestur á hóteli, ákveðið að hafa samband við bjórsala til að freista þess að kaupa áfengi.
Á svæðið mætti ákærði ásamt stjúpföður sínum, sem ók bifreiðinni, og móður sinni. Brotaþoli settist í aftursætið við hlið ákærða. Það fór þó svo að brotaþoli átti ekki pening fyrir bjórnum og eftir að hann reyndi árangurslaust að millifæra pening og prútta niður verðið þá kom til átaka.
Næturvörður á hótelinu lýsti því svo að hann hafi séð brotaþola koma hlaupandi inn innkeyrsluna og svo fela sig á bak við bíl. Bifreið hafi verið ekið á eftir honum með miklu offorsi. Úr bifreiðinni hafi svo stigið ökumaður og tveir farþegar sem öll hafi vikið sér að brotaþola með höggum og spörkum og meðal annars öskrað: We are going to kill him.
Næturvörðurinn hafði samband við lögreglu. Brotaþoli hlaut áverka af árásinni og var blóðugur og bólginn þegar lögreglu bar að garði. Næturvörður hafði náð númeri bifreiðarinnar og stöðvaði lögregla för ákærða skömmu síðar.
Ákærði greindi þó frá atvikum með öðrum hætti. Hann hafi verið úti að skemmta sér og viljað komast heim. Hann hringdi því í foreldra sína sem hafi komið að sækja hann. Hafi hann hitt fyrir brotaþola sem hafi verið dauðadrukkinn og sníkt far með þeim. Þegar þau höfðu skutlað brotaþola hafi hann heimtað áfengi, en þegar þau sögðust ekkert slíkt hafa í bílnum hafi hann kýlt ákærða í andlitið og svo neitað að yfirgefa bifreiðina.
Móðir ákærða og stjúpfaðir lýsti atvikum sem sama hætti og kom eins fram að lögregla fann ekkert áfengi í bílnum.
Dómari tók fram að skoða þyrfti vitnisburð foreldra ákærða út frá þeim tengslum sem þau hafa við hann. Hins vegar væri næturvörðurinn á hótelinu hlutlaus og hann hafi gefið greinagóða lýsingu á því sem hann varð vitni að. Honum hafi minnt að brotaþoli hafi ekki verið í miðbænum heldur á hótelinu og kallað þar til bjórsala þar sem honum mislíkaði verðlagning áfengis hjá hótelinu.
Dómari sagði að ákærði gæti í ljósi þessa ekki haldið því fram að árásin væri réttlætanleg með vísan til neyðarvarnar. Næturvörður hafi lýst því svo að ákærði og foreldrar hans hafi elt brotaþola uppi til að beita hann ofbeldi.
Hins vegar væri ljóst að rannsókn málsins hafi lokið fljótt eftir að málið kom upp en engu að síður var ekki gefin út ákærða fyrr en vorið 2023 og málið dómtekið tæpu ári síðar. Ákærða yrði ekki kennt um þennan drátt. Hann hafi heldur engan sakaferil og hafi verið ungur að árum þegar atvik áttu sér stað.
Þar með væri rétt að fresta ákvörðun refsingar haldi ákærði almennt skilorð næstu tvö árin. Brotaþoli var talinn eiga smá sök í málinu og bætur til hans lækkaðar svo hann bæri fjórðung tjóns síns sjálfur.