Ung kona var í góðri trú þegar hún hringdi í lögreglu í síðustu viku til að tilkynna að bílnum hennar hefði ekki verið stolið þó að lögregla væri að lýsa eftir samskonar bíl og með samskonar bílnúmeri að aftan. Tilkynningin leiddi til þess að kærasti hennar, sem var á bílnum þennan dag, var handtekinn af sex vopnuðum sérsveitarmönnum, auk tveggja venjulegra lögreglumanna, og þurfti að sitja í gæsluvarðhaldi í sex klukkustundir.
Í síðustu viku lýsti lögreglan eftir bíl af gerðinni Toyota Yaris, árgerð 2014, í tengslum við innbrot í peningaflutningabíl frá Öryggismiðstöðinni, við Hamraborg í Kópavogi. Í bílnum var fé úr spilakössum en talið er að þjófarnir haft á brott með sér 20 til 30 milljónir króna. Féð var í eigu Happdrættis Háskóla Íslands.
Næsta dag lýsti lögreglan eftir tveimur mönnum, sem sátu í Yaris-bílnum, á ljósmynd sem fylgdi tilkynningunni.
Fram kom í tilkynningum lögreglu að bíllinn væri á stolnum skráningarnúmerum, SLD43 að framan og NMA87 að aftan.
Áðurnefnd kona, sem er á miðjum þrítugsaldri, á einnig Toyota Yaris og hann ber númerið NMA87. Bílnum hennar hafði ekki verið stolið heldur hafði númeraplatan verið tekin af honum og sett aftan á bílinn sem þjófarnir virðast hafa ekið, sem er samskonar bíll og konan á.
Þessum upplýsingum kom konan til lögreglu en af einhverjum ástæðum voru viðbrögðin þau að kærasti hennar (lítið eitt eldri), sem var á bílnum hennar þennan dag, var handtekinn með fyrrgreindum hætti.
Parið nýtur nafnleyndar í þessari frétt vegna þess hvað málið er viðkvæmt. Konan segir atvikið vera gífurlegt áfall fyrir sig og kærasta hennar og hann hafi ekki einu sinni fengið afsökunarbeiðni þegar hann var látinn laus. „Þetta var algjörlega hræðilegt og ömurlegt að lesa fréttirnar um málið á meðan hann sat inni.“
Martöðinni er þó engan veginn lokið því kærasti hennar á yfir höfði sér atvinnumissi vegna atviksins. „Hann er að missa vinnuna út af þessu vegna þess að þetta gerðist á vinnutíma.“
Hún segir að það muni líklega taka þau langan tíma að vinna úr áfallinu og þau hugleiða að leita réttar síns hvað varðar mögulegt skaðabótamál gegn ríkinu.
„Við munu klárlega kanna réttarstöðu okkar,“ segir hún.